Erlent

Segja í­búum tuttugu og fimm þorpa að flýja

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelskir hermenn í Líbanon. Yfirlýsingar hersins gefa til kynna að umfang innrásarinnar gæti aukist.
Ísraelskir hermenn í Líbanon. Yfirlýsingar hersins gefa til kynna að umfang innrásarinnar gæti aukist. IDF

Ísraelski herinn sagði íbúum 25 bæja og þorpa í sunnanverðu Líbanon í dag að yfirgefa heimili sín. Byggðirnar eru norður af Litani-á en hún markar svæði sem átti að vera nokkurs konar hlífðarsvæði samkvæmt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 2006 og þykir yfirlýsingin til marks um mögulega útvíkkun innrásar Ísraela í Líbanon.

Markmið Ísraela er að þeirra sögn að reka vígamenn Hezbollah frá suðurhluta Líbanon til að tryggja það að um sextíu þúsund Ísraelar sem þurftu að flýja heimili sín í norðanverðu Ísrael fyrir tæpu ári, geti snúið aftur.

Yfirvöld í Líbanon segja að um 1,2 milljónir manna hafi þurft að flýja heimili sín þar í landi vegna árása Ísraela og að nærri því tvö þúsund manns hafi fallið á síðasta ári. Þar af flestir á síðustu tveimur vikum.

Ísraelar segja að nærri því tvö hundruð eldflaugum hafi verið skotið frá Líbanon í dag og nokkrum sjálfsprengidrónum hafi einnig verið flogið yfir landamærin.

Herinn birti í dag myndefni af hermönnum úr varaliði landsins í Líbanon og er það í fyrsta sinn sem staðfest er að varalið komi að árásinni. Nokkur stórfylki af varaliði hafa verið kölluð út og send að landamærum Líbanon á undanförnum dögum.

Hingað til hafa ísraelskir hermenn í Líbanon haldið sig nærri landamærum Ísrael og hafa loftárásir verið gerðar norðar í landinu. Ein þeirra er sögð hafa beinst að fjölmiðladeild Hezbollah-samtakanna í Beirút.

AP fréttaveitan hefur eftir meðlimi Hezbollah að enginn hafi fallið í árásinni.

Heilbrigðisráðuneyti Líbanon segir að minnsta kosti níu hafa fallið í einni loftárás Ísraela í Beirút, höfuðborg Líbanon, í dag.

Þá hefur komið til átaka milli ísraelskra hermanna og meðlima Hezbollah í suðurhluta Líbanon og virðist það hafa fyrst gert í dag, síðan Ísraelar hófu innrásina. Ísraelar segja að átta hermenn hafi fallið og þar af fimm sérsveitarmenn, í átökum við vígamenn sem eiga að hafa átt sér stað í miklu návígi, samkvæmt New York Times.

Engar árásir væntanlegar í dag

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, sagði í dag að ekki væri von á því í dag að Ísraelar gerðu árásir á Íran, eftir að Íranar skutu um tvö hundruð skotflaugum. Fregnir hafa borist af því að Ísraelar væru að íhuga árásir á olíuvinnslur og kjarnorkurannsóknarstöðar í Íran.

Sjá einnig: Í­huga á­rásir á olíuvinnslur og kjarn­orku­stöðvar í Íran

Biden sagði fyrr í dag að hann væri ekki hlynntur árásum á kjarnorkustöðvar en seinna þegar hann ræddi við blaðamenn sagði hann að embættismenn í Ísrael og í Bandaríkjunum væru að ræða árásir á olíuvinnslur en forsetinn virtist ekki hlynntur því.

„Við erum að ræða það. Ég held að það væri...en allavega,“ sagði Biden.


Tengdar fréttir

Rússar reyndu að skjóta niður ísraelskar stýriflaugar

Ísraelar gerðu í nótt árás á meinta vopnageymslu við hlið rússneskrar herstöðvar í Sýrlandi í nótt. Rússar reyndu að skjóta ísraelskar stýriflaugar niður en engin þeirra hæfði herstöðina sjálfa.

Fimm látnir í Beirút eftir loftárás á heilsugæslu

Að minnsta kosti fimm eru látnir eftir loftárás Ísraelsher á heilsugæslu í Beirút, höfuðborg Líbanon, samkvæmt tilkynningu frá stjórnvöldum í Líbanon. Að sögn Ísraelshers notuðu liðsmenn Hezbollah heilsugæsluna.

Bera hefndaraðgerðir undir Bandaríkin

Bandaríska fréttavefsíðan Axios hefur eftir háttsettum embættismanni í Ísrael að þarlend yfirvöld kunni að hefna fyrir umfangsmikla árás Íran í gær með árás á olíuframleiðslu Írana og aðra mikilvæga innviði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×