Handbolti

Ómar Ingi frá­bær í öruggum sigri Mag­deburg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ómar Ingi átti virkilega flottan leik í kvöld.
Ómar Ingi átti virkilega flottan leik í kvöld. EPA-EFE/MOHAMED HOSSAM

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur þegar Magdeburg lagði Göppingen með sjö marka mun í efstu deild þýska handboltans í kvöld, lokatölur 31-24.

Heimamenn í Magdeburg skoruðu fyrstu tvö mörk leiksins og þó gestirnir hafi svarað þá var snemma ljóst hvort liðið væri að fara með sigur af hólmi.

Um miðbik fyrri hálfleiks var munurinn kominn upp í þrjú mörk og í hálfleik var hann fimm mörk, staðan þá 16-11. Heimamenn komust allt að tíu mörkum yfir í síðari hálfleik en fínn endasprettur gestanna þýddi að munurinn var sjö mörk þegar flautað var til leiksloka, 31-24.

Ómar Ingi var markahæstur í liði Magdeburgar með sjö mörk ásamt því að gefa tvær stoðsendingar. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og gaf fjórar stoðsendingar. Ýmir Örn Gíslason skoraði tvö mörk í liði gestanna.

Magdeburg er með sex stig að loknum fjórum leikjum. Göppingen er hins vegar með aðeins eitt stig eftir fimm leiki.

Í Svíþjóð gerði Amo jafntefli við Malmö í efstu deild Svíþjóðar, lokatölur 28-28. Arnar Birkir Hálfdánsson skoraði fimm mörk fyrir lið Amo í leiknum. Arnar Birkir og félagar eruí 5. sæti deildarinnar með sex stig að loknum fimm leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×