Innlent

Ekki síst erfitt þegar menn eru fjölskylduvinir til margra ára­tuga

Jón Þór Stefánsson og Árni Sæberg skrifa
Eva B. Helgadóttir, lögmaður konunnar sem kærði Albert Guðmundsson.
Eva B. Helgadóttir, lögmaður konunnar sem kærði Albert Guðmundsson. Vísir/Einar

„Þessi niðurstaða auðvitað lítur að sakamáli og hvort ströng skilyrði séu uppfyllt til þess að dæma mann til fangelsisrefsingar, og breytir í rauninni engu um upplifun brotaþola af þessu kvöldi eða af samskiptum við ákærða,“ segir Eva B. Helgadóttir, réttargæslumaður konunnar sem kærði Albert Guðmundsson.

Albert var sýknaður í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag af ákæru um nauðgun.

Sjá nánar: Albert sýknaður

Eru þetta vonbrigði?

„Ég myndi aldrei orða það þannig. Það eru þung skref fyrir brotaþola að kæra menn og fara hina lögformlegu leið með svona mál. Ekki síst þegar menn eru þjóðþekktir eða fjölskylduvinir til margra áratuga. Þannig mér finnst brotaþoli í þessu máli hafa sýnt með eindæmum hugrekki og styrk.“

Eva segir að það sé ekki hennar að segja hvort málinu verði áfrýjað. Ríkissaksóknari tekur ákvörðun um það og hefur fjórar vikur til þess.

Upphaflega felldi Héraðssaksóknari málið niður en Ríkissaksóknari felldi þá ákvörðun niður og lagði það fyrir að sakamál yrði höfðað á hendur Alberti.

„Ríkissaksóknari auðvitað ákvað að þetta mál myndi fara í dómsal. Mörg þessara mála komast ekki á þetta stig,“ segir Eva.

Þá segir hún að ef að málinu yrði áfrýjað myndi það ríma við fyrri ákvörðun Ríkissaksóknara á fyrri stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×