Combs var viðstaddur þegar dómarinn greindi frá ákvörðun sinni og var klæddur í drapplitaðan fangabúning. Þrjár dætur Combs, tveir synir og móðir hans voru í dómsal og myndaði hann orðin „ég elska ykkur“ með vörunum þegar hann horfði til þeirra.
Þá setti hann höndina ítrekað á hjartað og lagði lófana saman, eins og í bæn.
Þetta er í þriðja sinn sem Combs mætir fyrir dómara frá því að hann var handtekinn. Hann hefur verið ákærður fyrir skipulagða glæpastarfsemi og kynferðisbrot og þá hafa ótal einkamál verið höfðuð gegn honum í tengslum við meðal annars nauðganir og mansal.
Combs hefur verið neitað um lausn gegn tryggingu og dvelur í fangelsi í Brooklyn.
Dómarinn í málinu íhugar nú að banna saksóknurum og lögmönnum Combs að tjá sig opinberlega um málið á meðan það er fyrir dómi.