Fótbolti

Solskjær hafnaði Dönum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ole Gunnar Solskjær stýrði Manchester United á árunum 2018-21.
Ole Gunnar Solskjær stýrði Manchester United á árunum 2018-21. getty/Mark Leech

Ekkert verður af því að Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, taki við danska landsliðinu.

Tipsbladet greinir frá því Solskjær hafi hafnað því að fara í viðræður við danska knattspyrnusambandið. Samkvæmt heimildum Tipsbladet á Solskjær í viðræðum um að taka við þjálfun hjá stóru félagi og vildi þar af leiðandi ekki ræða við Danina.

Solskjær hefur ekki þjálfað síðan hann var látinn fara frá Manchester United fyrir þremur árum. Hann hefur einnig stýrt Molde og Cardiff City.

Åge Hareide, landsliðsþjálfari Íslands, mælti með því að Danir myndu ráða Solskjær til að þjálfa landsliðið þeirra.

„Ole Gunnar myndi ráða við flest fótboltastörf. Þegar menn hafa verið knattspyrnustjórar Manchester United þá hafa þeir prófað flest. Hann hefur kynnst pressunni og öllu því sem fylgir svona starfi,“ sagði Hareide.

„Hann er búinn að fá nokkur ár til að hvíla sig en ég veit að hann hefur áhuga á að snúa aftur í þjálfun. Ef hann fær tilboð frá Danmörku þá er ég viss um að hann skoðar það.“

Kasper Hjulmand hætti sem landsliðsþjálfari Danmerkur eftir Evrópumótið í sumar. Lars Knudsen hefur stýrt danska liðinu síðan þá. Danir mæta Evrópumeisturum Spánverja í Þjóðadeildinni á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×