Fótbolti

Sæ­dís og Vålerenga með níu fingur á titlinum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sædís Rún er í lykilhlutverki hjá Vålerenga.
Sædís Rún er í lykilhlutverki hjá Vålerenga. Vísir/Getty

Sædís Heiðarsdóttir og lið Vålerenga er komið með níu fingur á norska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir öruggan sigur á Lyn í dag.

Lið Vålerenga hefur aðeins tapað tveimur leikjum í norsku deildinni á tímabilinu og er nú komið á fullt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar þar sem liðið tapaði naumlega fyrir Juventus fyrr í vikunni.

Í dag tók liðið á móti Lyn á heimavelli og með hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum gat Vålerenga tryggt sér titilinn með sigri í dag. Svo fór ekki því Brann vann öruggan sigur á Stabæk og á því enn tölfræðilegan möguleika á að ná titlinum af Sædísi og stöllum hennar.

Það verður þó að teljast ólíklegt því eftir 3-0 sigur Vålerenga í dag er liðið með níu stiga forskot þegar þrjár umferðir eru eftir. Að Vålerenga tapi öllum þremur leikjunum sem liðið er eftir verður að teljast ólíklegt og Vålerenga með níu fingur og níu tær á meistaratitlinum.

Sædís spilaði allan leikinn fyrir Vålerenga í dag en heimakonur náðu forystunni á 29. mínútu leiksins og gekk svo frá leiknum með tveimur mörkum sitt hvoru megin við hálfleikinn.

Vålerenga getur tryggt sér norska titilinn með því að ná í stig gegn Kolbotn um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×