Erlent

Segja átta manna fjöl­skyldu hafa fallið í loft­á­rás Ísraela

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Nuseirat-flóttamannabúðunum á norðanverðri Gasaströndinni þar sem fólk lést í loftárás í gærkvöldi.
Frá Nuseirat-flóttamannabúðunum á norðanverðri Gasaströndinni þar sem fólk lést í loftárás í gærkvöldi. Vísir/EPA

Palestínsk heilbrigðisyfirvöld segja að átta manna fjölskylda í Nuseirat-flóttamannabúðunum hafi fallið í loftárás Ísraela á miðri Gasaströndinni seint í gærkvöldi. Ísraelar hafa skipað hátt í hálfri milljón manna að rýma norðanverða Gasa. 

Hjón og sex börn þeirra á aldrinum átta til 23 ára féllu þegar hús þeirra varð fyrir loftárás Ísraela samkvæmt upplýsingum Shuhada al-Aqsa-sjúkrahússins í Deir al-Balah þangað sem líkin voru flutt. AP-fréttastofan segir að fréttamaður hennar hafi talið líkin og myndað bænir fyrir þau látnu.

Sjö manns til viðbótar hafi særst, þar á meðal tvær konur og barn sem eru í lífshættu. Breska ríkisútvarpið BBC segir að alls hafi 29 Palestínumenn fallið í árásum Ísraela í gær og í nótt.

Ísraelsher hefur ítrekað ráðist á skólabyggingar sem eru notaðar sem skýli fyrir fólk á flótta. Hann sakar vígamenn um að fela sig á meðal flóttafólks.

Herinn hefur nú skipað öllum íbúum á norðanverðri Gasaströndinni, þar á meðal í Gasaborg, að hafa sig á brott vegna hernaðaraðgerða gegn vopnuðum Palestínumönnum í Jabaliya. Um 400.000 manns eru sagðir enn búa á svæðinu eftir að Ísraelar hrökktu íbúum þar á flótta við upphaf stríðsins í fyrra.

Átök Ísraels og Hezbollah halda áfram í nágrannaríkinu Líbanon. Ísraelsher segir að liðsmenn Hezbollah hafi skotið á fjórða hundrað eldflauga á Ísrael í gær. Líbönsk heilbrigðisyfirvöld segja að fimmtán manns hafi fallið í þremur árásum Ísraela í sunnanverðu Líbanon í gær. Þá hafi fimm sjúkrahús orðið fyrir tjóni í loftárásum Ísraela á Baalbek og Bekaa-dal.

Þá er enn búist við því að Ísraelar láti til skarar skríða gegn Íran til þess að hefna fyrir flugskeytaárásir á Ísrael. Þær árásir voru svar Írana við drápi Ísraela á leiðtoga Hezbollah-samtakanna sem klerkastjórnin í Teheran styður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×