Skoðun

Al­þingis­kosningar 2024, fer allt á versta eða besta veg?

Reynir Böðvarsson skrifar

Ríkisstjórnin er fallin og komin tími til, atburðarásin síðan Katrín Jakobsdóttir yfirgaf stjórnmálin hefur ekki verið traustvekjandi fyrir þetta ríkisstjórnarsamstarf. Það hefur ekkert verið til staðar eftir brotthvarf hennar sem hefur getað haldið saman þessari ríkisstjórn. Hún var óumdeilanlega sú eina persóna í íslenskum stjórnmálum sem hafði möguleika á að halda í tauma á slíku stjórnarsamstarfi, og henni tókst að halda þessu gangandi merkilega lengi. Bjarni hins vegar varð að gefast upp eftir bara nokkra mánuði í forsætisráðherrastól, annað sinn á ferli sínum sem hann þvingast til þess að gefa frá sér þennan stól eftir stuttan tíma. Sjálfstæðisflokkurinn er að mínu mati einfaldlega ekki stjórntækur, algjört öfga hægri æpir innan úr flokknum í hvert sinn sem eitthvað gagnlegt fyrir almenning eða umhverfi er til umræðu og þarf meðhöndlun ríkisstjórnar.

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur sérhagsmunaafla, flokkur sem gerir það sem fjármagnseigendur boða. Flokkurinn þykist hafa stefnu, sjálfstæðisstefnuna sem er í raun innantómt flosker sem engin skilur, en flokkurinn er í rauninni bara verkfæri fjármagnseigenda á Íslandi til þess að viðhalda sínum áhrifum. Ekkert annað! Það er með ólíkindum að fólk sjái þetta gerspillta verkfæri auðmanna með þeim augum sem það hefur sýnt í kosningum. Það sorglega er að fylgitungl flokksins, Framsóknarflokkurinn er alltaf til staðar, og framfylgir stefnu Sjálfstæðisflokksins í þessum nýfrjálshyggju dansi hvar og hvenær sem er. Framsóknarflokkurinn hefur ekki haft aðra stefnu en að sitja í ríkisstjórn í áratugi. Báðir þessir flokkar hafa takmarkaðan áhuga loftslagsvandanum nema sem hugsanlegs viðskiptatækifæri.

Viðreisn kan engan dans annan en nýfrjálshyggju dansinn, hefur aldrei lært gömlu dansana sem ganga fyrst og fremst út á að dansa saman, tvö og tvö og í hóp, þar sem mikilvægt er að taka tillit til allra á dansgólfinu. Viðreisn kan enga svoleiðis dansa og er eins og hluti af Sjálfstæðisflokknum öfga hægriflokkur þar sem allt af virði mælist einvörðungu í peningum.

Miðflokkurinn kan bara einn dans og það er að dansa eftir pípu formannsins, ótrúlega einhæfur og leiðinlegur dans sem kallast skynsemishyggju dansinn. Sporin veit enginn fyrir fram eða skilja en dansinn fylgir einfaldlega þeim hljóðum sem koma úr pípu formannsins hverju sinni og endar oftast með öngþveiti á gólfinu. Flokkur fólksins er furðulegt fyrirbæri í kring um eina konu sem kan líka að spila á pípu, vissulega mjög ósamanhangandi en einfalda tóna, næstum alltaf þá sömu og í sama dúr. Það sem er sameiginlegt með kjósendum þessara flokka er að þeir vilja dansa eftir pípu einhvers. Báðir þessir flokkar gefa lítið fyrir loftlagsvandamálin.

Píratar eru mikilvægur flokkur í íslenskum stjórnmálum, hafa gert mikið gagn og þurfa nauðsynlega að vera áfram til staðar á Alþingi. Það er ekki að ástæðulausu að margir Sjálfstæðismenn láti þá fara í taugarnar á sér, þeim hefur tekist ótrúlega oft og vel að svipta hulunni af spillingunni í Sjálfstæðisflokknum og meðvirkni embættismanna kerfisins gagnvart þessari spillingu og því mikilvægt að því starfi verði haldið áfram. Píratar eru flokkur mannréttinda og gerir sér vel grein fyrir hversu mikilvægt það er að koma böndum á hlýnun jarðar.

Hvort Vinstri hreyfingin - grænt framboð nái inn mönnum á þing í næstu kosningum er ekki víst og er það náttúrulega vegna þess að þau hafa haldið Sjálfstæðisflokknum við völd í sjö ár. Það er ekki auðvelt að fyrirgefa slíkt og gamlir kjósendur hugsa sig tvisvar um áður enn þeir gefa atkvæði sitt í slíka óvissuferð aftur enda ekki þörf á því því það eru aðrir valkostir til vinstri nú. Það væri þó slæmt því þarna er margt gott fólk með hjartað til vinstri, hafa góðan skilning á loftlagsvánni og verndun íslenskrar náttúru. Einnig er hætta á að mörg vinstri atkvæði tapist ef þau ná ekki inn á þing.

Samfylkingin fer með himinskautum í skoðanakönnunum og er það vel eins og málin standa. Spurningin er bara, eru það hægrikratar sem eru að safnast saman þarna eða er um að ræða gamla sósíaldemókratískar hugsjónir um sterkt ríkisvald, jöfnuð, félagslega þjónustu og þokkalega skattheimtu til þess að fjármagna slíkt. Ég er ekki viss, Nýfrjálshyggjan hefur víða farið illa með sósíaldemokratiska flokka sem hafa þar af leiðandi mist tengsl við verkalýðshreyfingu og venjulegt vinnandi fólk.

Það er mikilvægt að Sósíalistaflokkurinn nái mönnum inn á þing í þessum kosningum, helst mörgum. Það er eina almennilega tryggingin fyrir því að alvöru vinstri sjónarmið komi þar fram og þar með nánast eini möguleiki til þess að alvöru stefnubreyting eigi sér stað sem varðar velferð og almannahag, beygt af vegi nýfrjálshyggjunnar, aftur inn á braut samfélagslegrar uppbyggingar. Sósíalistaflokkurinn er eini flokkurinn sem má treysta til þess að beina spjótum sínum gegn misskiptingunni í samfélaginu á markvissan hátt og berjast fyrir umbætum fyrir þá sem hafa orðið undir í darraðardansi nýfrjálshyggjunnar á síðustu áratugum. Sósíalistaflokkurinn hefur góð tengsl við verkalýðshreyfinguna og saman eru þessi öfl grundvöllur þess að nýtt framfaraskeið geti hafist aftur á Íslandi þar sem allir eru með og engin skilin eftir, hvorki leigjendur né láglaunafólk, nýtt tímabil framfara og aukinna lífsgæða fyrir alla til framtíðar án þess að ganga á þolmörk þess lífríkis sem við manneskjur erum hluti af en ekki drottnari yfir. Sósíalistaflokkurinn er friðarflokkur, gegn hernaðarbandalögum og hermangi, gagnrýninn á þá einsleitu umræðu um alþjóðamál sem Bandaríkin hafa óáreitt fengið að stjórna síðustu áratugi.

Tvær gjörólíkar sviðsmyndir eru sýnilegar eftir næstu kosningar, ein þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ásamt Miðflokknum og Viðreisn fara með aðalhlutverk og nýfrjálshyggjubrjálæðið heldur áfram sem endar líklega með algjöru hruni þjóðfélagssáttmálans. Hin sviðsmyndin er þar sem vinstrið nær afgerandi ítökum og farið verði inn á sjálfbæra samfélagsþróun þar sem allir í þjóðfélaginu eru með. Til þess að svo geti orðið þarf Sósíalistaflokkurinn að fá góða kosningu, fjölda þingsæta sem nægir til að halda Samfylkingunni VG og Pírötum við efnið eins og vinstriflokkar til vinstri við sósíalista flokkana í Skandinavíu gerðu þegar Norrænu velferðarþjóðfélögin voru og hétu.

Höfundur er jarðskjálftafræðingur.




Skoðun

Sjá meira


×