Dóttir Alexei Moskaljov var tólf ára gömul þegar hún teiknaði mynd af konu með úkraínskan fána sem hélt hlífiskildi yfir barni sínu fyrir rússneskri eldflaugaárás í myndmenntartíma skömmu eftir að innrásin í Úkraínu hófst. Skólastjórinn í bænum Jefremov nærri Túla hringdi á lögregluna og stúlkan var yfirheyrð af fulltrúum leyniþjónustunnar FSB og faðir hennar sömuleiðis.
Leyniþjónustumennirnir sögðu Moskaljov að hann æli dóttur sína „rangt“ upp, að sögn Washington Post. Moskaljov var kærður fyrir áróður gegn stríðinu og sektaður en í desember 2022 var hann svo ákærður fyrir að bera út óhróður um rússneska herinn.

Dótturinni var komið fyrir á munaðarleysingjahæli þar sem móðir hennar neitaði að taka við henni. Moskaljov hafði alið hana einn upp frá þriggja ára aldri. Hann reyndi að flýja land en var handsamaður og stungið í fangelsi. Stúlkunni var á endanum komið til móður sinnar.
Moskaljov var loks látinn laus í dag. Hann sagði fjölmiðlamönnum sem tóku á móti honum að það hefði verið dóttir hans sem hélt honum gangandi innan veggja fangelsisins þar sem hann sætti illri meðferð.
Hundruð barna handtekin fyrir mótmæli gegn stríðinu
Stjórn Vladímírs Pútín forseta hefur gengið hart fram í að bæla niður allt andóf og þrengja að frjálsum fjölmiðlum og félagasamtökum í landinu á undanförnum árum, sérstaklega eftir að hann hóf innrásstríð sitt hans í Úkraínu.
Rússneskir skólar eru sagðir dreifa áróðri stjórnvalda um stríðið og kennarar og nemendur sem lýsa andstöðu við stríðið fá að kenna á því.

Mannréttindasamtökin OVD-Info segja að á sjötta hundrað barna hafi verið handtekin fyrir mótmæli gegn stríðinu og að tuttugu skólabörn hafi hlotið þunga fangelsisdóma fyrir ýmis konar andóf, þar á meðal að reyna að trufla vopnasendingar til Úkraínu. Tugir þeirra eru sagðir á lista stjórnvalda yfir öfga- og hryðjuverkamenn.
Samtökin segja mál Moskaljov hluti af ógnvekjandi þróun í Rússlandi þar sem ungmennum sem eru mótfallin stríðinu og fjölskyldum þeirra sé ógnað á sama tíma og börn sé þvinguð inn í hervætt samfélag sem þolir ekkert andóf.