Innlent

Mið­bær með skautasvelli byggður í Þor­láks­höfn

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Mikil spennan og eftirvænting er hjá íbúum í Þorlákshöfn og í nágrenninu fyrir miðbænum enda mættu fjölmargir á kynningarfundinn í vikunni.
Mikil spennan og eftirvænting er hjá íbúum í Þorlákshöfn og í nágrenninu fyrir miðbænum enda mættu fjölmargir á kynningarfundinn í vikunni. Aðsend

Stórhuga framkvæmdir eru fyrirhugaðar í Þorlákshöfn fyrir nokkra milljarða króna en þar á að fara að byggja miðbæ í einkaframkvæmd. Skautasvell verður hluti af nýja miðbænum.

Boðað var til kynningarfundar í vikunni um nýja miðbæinn en hugmyndirnar féll vel í flesta fundarmenn og urðu töluverðar umræður um þetta mikla og stóra verkefni. Fyrir þá sem þekkja ekki til í Þorlákshöfn þá verður miðbærinn á svæðinu hægra megin við umferðarljósin þegar keyrt er inn í bæinn við Selvogsbrautina.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss lýsir hér miðbænum, sem á að fara að byggja en Þorlákshöfn hefur stækkað mjög mikið á síðustu árum.

„Og er nú svo komið að það er orðin þörf fyrir svona lifandi vettvang fyrir bæði fólk að sýna sig og sjá aðra og efla í kringum það bæði mannlíf og menningu og skapa vettvang fyrir þjónustufyrirtæki, bæði verslanir, veitingastaði og þetta, sem við þekkjum í sterkum miðbæjum og út á það ganga þessar hugmyndir,“ segir Elliði og bætir við.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, sem er mjög spenntur eins og aðrir íbúar sveitarfélgsins fyrir nýja miðbænum, sem á að byggja upp í Þorlákshöfn.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Þetta verður að sumuleyti nokkuð klassískur miðbær með verslanir og þjónusturými á jarðhæðum og það er gert ráð fyrir hóteli í miðbænum líka, íbúðum að hluta til á efri hæðum. Torgið sjálft er mjög svona milt og manneskjulegt. Svo höfum við hug á því að ganga þannig frá svæðinu að yfir vetrartímann getum við rekið skautasvell á torginu.“

Elliði segir að kostnaðurinn við miðbæinn hlaupi á einhverjum milljörðum króna, jafnvel tugi milljörðum en verkið verður unnið í einkaframkvæmd af félaginu Arnarhvoli . Hann segir að framkvæmdir hefjist í vetur með byggingu fyrstu húsanna.

„Fólk tekur mjög vel í þetta. Það var alveg frábær mæting á kynningarfundinn og við höfum fengið ábendingar um ýmislegt, sem tengist eftir það þannig að þetta er unnið í mjög góðu samstarfi við bæði framkvæmdaaðilann og íbúa og auðvitað hlökkum við mikið til,“ segir Elliði.

Skautasvell verður í miðbænum yfir vetrartímann og skiltið, „Hamingjan er hér“ verður að sjálfsögðu á staðnum.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×