Íslenski boltinn

Fá annað tæki­færi: Lengd fram­lengingar kærð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Stjarnan getur enn orðið Íslandsmeistari í 4. flokki drengja í C-liða keppni.
Stjarnan getur enn orðið Íslandsmeistari í 4. flokki drengja í C-liða keppni. Vísir/Diego/Samsett

Á miðvikudag mætast KA og Stjarnan að nýju á Akureyri í leik um Íslandsmeistaratitilinn í C-liða keppni 4. flokks drengja en þar spila drengir fæddir 2010 og 2011. Ekki verður allur leikurinn leikinn upp á nýtt heldur aðeins framlenging leiksins. Þá þarf KA að greiða ferðakostnað Stjörnunnar.

Úrslitaleikurinn fór fram 14. september síðastliðinn og var staðan 3-3 að loknum venjulegum leiktíma en heimamenn komust 3-0 yfir. Í kjölfarið var framlengt en aðeins voru spilaðar tíu mínútur (2x5 mínútur) frekar en 2x10 mínútur eins og reglurnar kveða á um. Þar sem ekki var skorað í framlengingu þurfti að útkljá leikinn með vítaspyrnukeppni og þar hafði KA betur.

Nú greinir Akureyri.net frá því að Stjarnan hafi kært úrslit leiksins til aga- og úrskurðarnefndar Knattspyrnusambands Íslands þegar félagið áttaði sig á mistökum dómarans og að framlengingin hafi átt að vera samtals 20 mínútur en ekki aðeins 10 mínútur.

Þar kemur einnig fram að í leiknum hafi hvort lið aðeins tekið þrjár vítaspyrnur en í vítakeppni er það liðið sem er yfir eftir fimm spyrnur sem vinnur. Það er ef það er ekki ljóst hver vinnur áður en fimmta spyrnan er tekin.

Stjarnan fór fram á að úrslit leiksins yrðu dæmd ógild og að framlengingin, og vítaspyrnukeppnin ef til hennar kæmi, færi fram á heimavelli Stjörnunnar. Til vara gerðu Garðbæingar sömu kröfu nema ef leikið yrði á Akureyri þá þyrfti KA að greiða ferðakostnað.

Kæra Stjörnunnar er á þessa leið:

  • Þegar venjulegum leiktíma lauk og áður en framlenging hófst yfirgaf dómarinn leikstað og afhenti öðrum flautuna og þar með stjórn leiksins.
  • Sá sem tók við flautunni þekkti ekki reglugerðina og var framlengingin 2x5 mínútur en ekki 2x10 mínútur. Þjálfarateymi Stjörnunnar mótmælti og lét vita hversu langur leikurinn ætti að vera.
  • Jafnt var með liðum eftir framlengingu og þá var farið í vítaspyrnukeppni sem var þrjár spyrnur á hvort lið í stað fimm. Aftur lét þjálfarateymi Stjörnunnar í sér heyra.

KA kom eftirfarandiá framfæri við aga- og úrskurðarnefnd KSÍ:

  • Dómarinn var viðstaddur eftir að venjulegum leiktíma lauk og tók sjálfur ákvörðun að lengd framlengingar yrði 2x5 mínútur en ekki 2x10 mínútur.
  • Dómarinn upplýsti bæði þjálfarateymi um ákvörðun sína. Engin mótmæli né mótbárur komu frá þjálfarateymi Stjörnunnar. Myndbandsupptaka staðfestir það.
  • Dómarinn þurfti að yfirgefa leikstað þar sem hann var hluti af dómarateymi í leik sem byrjaði á Dalvík klukkan 16.30. Fól hann þá öðrum að taka við hlutverki dómara.
  • Þótt framkvæmd leiksins hafi ekki verið í samræmi við reglugerð KSÍ bitnuðu mistök dómara á báðum liðum.

Í niðurstöðu aga- og úrskurðarnefndar KSÍ segir meðal annars:

  • Óumdeilt er að dómari leiksins upplýsti um og ákvað að framlenging skyldi vera 2 x 5 mínútur. Að henni lokinni fór fram vítaspyrnukeppni þar sem hvort lið tók aðeins þrjár spyrnur til að ráða fram úrslit í leiknum.
  • Samkvæmt reglugerðar KSÍ skal leiktími framlengingar í 4. flokki karla vera 20 mín (2 x 10 mín). Sé enn jafnt að lokinni framlengingu skal fara fram vítaspyrnukeppni þar sem hvort lið tekur fimm spyrnur.
  • Ef staðan er jöfn þegar hvort lið hefur tekið fimm spyrnur, skal spyrnum haldið áfram þar til annað liðið hefur skorað marki meira en hitt úr jafn mörgum spyrnum.
  • Að mati aga- og úrskurðarnefndar eru ákvæði knattspyrnulaganna og reglugerðar ófrávíkjanleg og því ljóst að dómarinn gerði mistök varðand leiktímann. Engu breytir hvort mistök dómara hafi haft áhrif á báða aðila eða hafi verið framkvæmd með vitund beggja liða.

Fallist er á kröfu Stjörnunnar að:

  • Framlengingin skal fara fram að nýju, nú í 2 x 10 mínútur. Verði jafnt eftir framlengingu skal fara fram vítaspyrnukeppni, 5 spyrnur á hvort lið.
  • Leikið skal á heimavelli KA.
  • KA er gert að greiða ferðakostnað Stjörnunnar til Akureyrar og heim aftur. Tekið er fram að gæta skuli hagkvæmni í ferðakostnaði. Hann getur „aldrei numið hærri upphæð en sem nemur fargjaldi frá viðurkenndu rútufyrirtæki á umræddri leið. Sé ferðakostnaður hærri skal aðkomulið bera kostnað af mismun.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×