Enski boltinn

Á­fall fyrir stór­leikinn við Liver­pool: „Ekki frá­bærar fréttir“

Sindri Sverrisson skrifar
Riccardo Calafiori á vellinum í gær eftir að hafa meiðst.
Riccardo Calafiori á vellinum í gær eftir að hafa meiðst. Getty/David Price

Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, segir það vissulega „ekki frábærar fréttir“ að ítalski varnarmaðurinn Riccardo Calafiori hafi meiðst í hné í leiknum við Shaktar Donetsk í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld.

Arsenal vann leikinn 1-0 en meiðsli Calafiori, sem varð að fara af velli í seinni hálfleik, vörpuðu skugga á leikinn.

Þar með bætist enn á meiðslalistann hjá Arsenal en liðið á fyrir höndum algjöran stórleik við Liverpool á sunnudaginn, í toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

Táningurinn Myles Lewis-Skelly kom inn á fyrir Calafiori í gærkvöld en óvíst er hve alvarleg meiðsli Ítalans eru.

„Hann varð að koma af velli því hann fann fyrir einhverju. Ég veit ekki hve alvarlegt það er svo það má segja að þetta séu ekki frábærar fréttir,“ sagði Arteta.

Arteta er í ákveðinni varnarkrísu því Arsenal verður einnig án William Saliba, vegna leikbanns, og Jurrien Timber hefur ekki spilað síðan í byrjun mánaðarins vegna meiðsla. Þá eru Takehiro Tomiyasu og Kieran Tierney enn frá vegna meiðsla.

Segir ólíklegt að Saka spili

Norski miðjumaðurinn Martin Ödegaard er einnig frá vegna meiðsla og Bukayo Saka hefur misst af síðustu tveimur leikjum Arsenal eftir að hafa meiðst í læri í landsleikjatörninni með Englandi.

Arteta virtist ekki sérlega vongóður um að geta teflt Saka fram á sunnudaginn: „Ég veit það ekki. Hann hefur ekki enn getað æft svo það er ólíklegt.“

Ben White var tekinn af velli eftir fyrri hálfleikinn gegn Shaktar en Arteta útskýrði eftir leik að það hefði ekkert með meiðsli að gera.

„Hann var kominn með gult spjald og við höfum spilað nógu marga leiki manni færri undanfarið. Þeir voru fjölmennir á hans kanti og ég vildi ekki taka neina sénsa,“ sagði Arteta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×