Þetta hefur raunar lengi staðið til, en þáverandi formenn ríkisstjórnarflokkanna tilkynntu þær fyrirætlanir fyrst í apríl 2022. Verði frumvarpið að lögum nú munu verkefni stofnunarinnar færast til Fjármálaráðuneytisins. Bankasýslan var upphaflega stofnuð eftir hrun þegar stórir eignarhlutar í fjármálafyrirtækjum lentu í höndum ríkisins.
Á sínum tíma var Bankasýslan stofnuð til þess að „auka trúverðugleika eigendaákvarðana ríkisins í málefnum bankanna svo daglegur rekstur þeirra sé hafinn yfir vafa um pólitísk afskipti“, eins og það var orðað í athugasemdum við frumvarpið á sínum tíma. Þetta gekk þó ekki alveg eftir og eftir hina miklu gagnrýni sem kom upp við söluna á hlut í Íslandsbanka í mars 2022, sem leiddi meðal annars til afsagnar fjármálaráðherra, var ákveðið að leggja stofnunina niður.
Áður hafði stofnunin sætt margskonar gagnrýni og oft áður hafði verið talað um að leggja hana niður, án þess að af því hafi orðið.
Drög að slíku frumvarpi eru nú loks komin fram að nú er að sjá hvort þingmenn nái að afgreiða málið fyrir komandi kosningar.
Nái lögin fram að ganga verður Bankasýslan úr sögunni um næstu áramót.