Rúm vika er í að flokkar sem bjóða sig fram til Alþingis þurfa að tilkynna framboðslista sína. Búið er að tilkynna nokkra lista og nokkrir búnir að tilkynna hverjir leiða flokkana inn í kosningarnar.
Helstu tíðindi dagsins eru að Jón Gnarr mun ekki leiða Viðreisn í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna líkt og hann sóttist eftir. Oddvitar flokksins í síðustu kosningum munu leiða þar á ný og segist Jón vera sáttur með sitt hlutskipti.
Í dag ætlar Viðreisn að kynna lista í Norðvesturkjördæmi, sem og Vinstri græn á Suðurlandi og Lýðræðisflokkur Arnars Þórs Jónssonar kynnir efstu þrjá í öllum kjördæmum.
Á morgun kynnir Viðreisn lista í Reykjavík og Suðurkjördæmi og á föstudaginn kynnir Framsókn sinn fyrsta lista, í Norðvesturkjördæmi. Rest frá þeim kemur á laugardaginn, en laugardagurinn virðist ætla að vera stór dagur. Þá kynnir Samfylkingin alla sína lista, Viðreisn kynnir lista í Norðaustur- og Suðvesturkjördæmi, og VG í Norðaustur.
Það liggur ekki fyrir hvenær Sjálfstæðismenn kynna lista í Reykjavíkurkjördæmunum en búast má við að listinn í Suðvesturkjördæmi verði kynntur á morgun eftir fund kjördæmisráðs. Listarnir eru í vinnslu hjá Miðflokksmönnum sem gefa lítið upp og Sósíalistar ætla að kynna lista um leið og þeir eru tilbúnir.
Píratar vinna í sínum listum og gera má ráð fyrir þeim á næstu dögum. Flokkur fólksins kynnir sína lista að öllum líkindum sama dag og framboðslistarnir verða sendir inn, fimmtudaginn í næstu viku, 31. október.