Erlent

Meiri­hluti Frakka telur lýð­ræðið ekki virka

Kjartan Kjartansson skrifar
Stuðningskona vinstri flokkanna með spjald með kröfu um að Macron forseti viki úr embætti á mótmælum rétt áður en hann skipaði hægrimann sem forsætisráðherra í september.
Stuðningskona vinstri flokkanna með spjald með kröfu um að Macron forseti viki úr embætti á mótmælum rétt áður en hann skipaði hægrimann sem forsætisráðherra í september. Vísir/EPA

Flestir svarendur skoðanakönnunar í Frakklandi sögðust telja að lýðræðið virkaði ekki og fjórðungur sagði að það væri ekki besta stjórnskipulagið sem völ væri á. Meira en helmingur svarenda sagði að það þyrfti „sterkt vald“ til að halda uppi lögum og rétti í landinu.

Könnunin var gerð fyrir ráðgjafarstofnun frönsku ríkisstjórnarinnar og þingsins en niðurstöður hennar voru birtar í franska blaðinu Le Parisien í gærmorgun, að því er kemur fram í frétt Reuters-fréttastofunnar. Þær benda til þess að fjarað hafi undan stuðningi við lýðræðið í Frakklandi.

Líkt og víða annars staðar í Evrópu og í Bandaríkjunum hefur fjarhægriöflum vaxið ásmegin í Frakklandi. Þannig hlaut Þjóðfylking Marine Le Pen flest atkvæði í fyrri umferð þingkosninga sem Emmanuel Macron forseti boðaði óvænt til í sumar. Hún laut þó í lægra hald fyrir kosningabandalagi vinstriflokka í seinni umferðinni þó hvorug fylkingin næði meirihluta á þingi.

Staða Macrons sjálfs er veik en hann missti þingmeirihluta í kosningunum. Hann skipaði Michel Barnier frá íhaldsflokknum Lýðveldissinnunum sem forsætisráðherra í síðasta mánuði þrátt fyrir að sá flokkur hefði fengið færri atkvæði en flokkarnir yst á hægri og vinstri vængnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×