Talið er að tveir þriðju hlutar ráðstafana sem tilgreind eru í fjárlögum stuðli að jafnrétti kynjanna eða taki mið af markmiðum um jafnrétti. Aðrar tillögur ekki, þær miði að óbreyttri stöðu þar sem karlar séu almennt í meirihluta meðal „haghafa“.
Þannig komast útsendarar Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármálaráðherra að því að ráðstafanir í samgöngumálum stuðli að jafnréttindum.

„Þannig stækkar vetrarþjónusta vinnusóknarsvæði kvenna og eykur möguleika þeirra á að sækja fjölbreyttari vinnu meira en karla þar sem þær eiga almennt minni bíla og síður fjórhjóladrifna.“
Fleiri konur fljúga og því er Loftbrúin góð
Styrkir til flugsamgangna styrkja aðstöðumun íbúa á landinu en konur nýta stuðning Loftbrúar hlutfallslega meira en karlar og er sá munur greinilegur í öllum aldursflokkum, fyrir utan börn.
Þá er aukinn varnarstuðningur við Úkraínu talinn stuðla að jafnrétti. Þetta þarfnast útskýringa:
„Vopnuð átök líkt og þau í Úkraínu hafa ólík áhrif á kynin. Vísbendingar eru um að átökin hafi magnað kynjamisrétti og mismunun sem fyrirfannst í Úkraínu og að konur verði einkum, frekar en karlar, fyrir fjölþættum áhrifum innrásarinnar, á meðan áhrif herskyldunnar eru fyrst og fremst á karla.“

Þá er eingreiðsla til örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega talin styrkja stöðu viðkvæms hóps í samfélaginu en um 2/3 hlutar hópsins eru konur og er aðgerðin því talin stuðla að jafnrétti.
„Ráðstafanir sem ætlað er að bregðast við ofbeldi gegn börnum og meðal barna eru almennt taldar stuðla að jafnrétti en birtingarmyndir ofbeldis eru ólíkar eftir kynjum og mikilvægt að aðgerðir taki mið af því. Þá er allur stuðningur við börn og fjölskyldur til þess fallinn að draga úr álagi á aðstandendur sem ætla má að konur finni fyrir í auknum mæli.“
Miklu fleiri karlar í kvikmyndagerð
En þá eru það atriði sem ekki teljast þjóna settum markmiðum. Aukin framlög til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar eru talin viðhalda stöðu þar sem hallar á konur en karlar eru í miklum meiri hluta þeirra sem starfa við kvikmyndagerð og tekur ráðstöfunin ekki á þeim kynjahalla sem er í greininni.
Og Landhelgisgæslan er ekki talin góð í þessu samhengi. Aukin framlög til hennar eru talin viðhalda óbreyttri stöðu kynjanna en karlar eru í meiri hluta meðal starfsfólks og haghafa.

Og svo er það sem ekki liggur í augum uppi, gæti verið vont fyrir konur en er það kannski ekki til lengri tíma litið. Og þar er um að ræða fjármagn til ofanflóðavarna sem mun að öllum líkindum, samkvæmt fjáraukalögum, renna að mestu til karla.
„En ráðstöfunin er engu að síður talin stuðla að jafnrétti til lengri tíma litið þar sem hún eykur seiglu nærsamfélagsins gagnvart náttúruvá, í þessu tilfelli krapaflóðum. Almennt séð eru viðkvæmir hópar, t.d. börn og aldraðir, útsettari fyrir áhrifum náttúruvár og því mun aukin seigla hafa jákvæð áhrif á jafnrétti.“