Jakob Frímann mun það sem eftir lifir þessa þings starfa utan þingflokka.
Nokkur styr hefur staðið um stöðu Jakobs eftir að tilkynnt var að hann muni ekki leiða lista Flokks fólksins í kjördæminu Norðaustur. Sigurjón Þórðarson, varaþingmaður Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, verður nýr oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi.
Jakob sendi í kjölfarið frá sér stutta yfirlýsingu sem vakti í raun fleiri spurningar en svör. Þar segist hann skilja stoltur við Flokk fólksins enda sýni nýleg Gallup könnun að undir hans forystu hafi fylgi hans þrefaldast á Norðurlandi eystra og er hvergi meira á landinu.
„Aðskilnaðurinn á sér aðdraganda þar sem við sögu kemur m.a. ólík sýn á leikreglur hreinskiptni og trausts,“ segir meðal annars í tilkynningunni þeirri.
Jakob hefur ekki svarað ítrekuðum skilaboðum fréttastofu.