Fótbolti

Stelpurnar fengu skell á móti Finnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arna Eiríksdóttir var fyrirliði íslenska liðsins í leiknum í dag.
Arna Eiríksdóttir var fyrirliði íslenska liðsins í leiknum í dag. Vísir/Anton

Íslenska 23 ára landslið kvenna tapaði vináttulandsleik á móti Finnum í dag.

Finnarnir unnu leikinn 3-0 eftir að hafa verið 2-0 yfir í hálfleik. Liðin mætast tvívegis á næstu dögum og fara báðir leikirnir fram í Finnlandi.

Elli Seiro skoraði tvö mörk eftir að Silja Jaatinen hafði komið Finnum yfir í 1-0 á 24. mínútu. Mörkin hjá Seiro komu á 36. og 64. mínútu.

Finnland komst yfir á 24. mínútu þegar Veera Hellman átti fyrirgjöf inn á miðjan teig þar sem Silja Jaatinen náði að koma boltanum áfram og í netið. Íslenska liðið hafði misst boltann í tvígang frá sér í aðdragandanum sem gaf Hellman færi á að leggja upp markið.

Rúmum tíu mínútum síðar varð staðan svo 2-0. Ria Karjalainen átti fast skot sem Tinna Brá Magnúsdóttir náði að verja til hliðar en Elli Seiro var fyrst til að átta sig, náði frákastinu og skoraði.

Þriðja markið kom eftir hraða sókn þar sem þær finnsku komust upp í gegnum miðju íslenska liðsins. Seiro fékk nægan tíma til að leggja boltann fyrir sig i teignum og skoraði laglega.

Mikið hefur verið pressað á að það að 23 ára landsliðið fái fleiri verkefni og þetta er því mikilvæg reynsla fyrir íslensku stelpurnar. Þær fá líka tækifæri til að gera betur í hinum leiknum.

Margrét Magnúsdóttir þjálfari liðsins og aðstoðarfólk hennar Lára Hafliðadóttir, Sigmar Ingi Sigurðarson og Þórður Þórðarson munu væntanlega fara vel yfir leikinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×