Innlent

Á­kærður fyrir í­trekuð brot gegn nákomnu stúlku­barni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands.
Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Suðurlands. Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot, þar á meðal nauðganir, gegn stúlkubarni. Hann er sagður hafa ógnað lífi, heilsu og velferð stúlkunnar á alvarlegan hátt með háttsemi sinni.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Suðurlands í gær. Fréttastofa hefur ákæru málsins undir höndum, en ýmis atriði hafa verið afmáð, svosem hvenær meint brot voru framin og hver tenging stúlkunnar og mannsins er.

Maðurinn er meðal annars ákærður fyrir stórfellt brot í nánu sambandi. Því má gera ráð fyrir að stúlkan sé afkomandi mannsins, eða þá að hún hafi búið á sama heimili og hann.

Af ákærunni má sjá að meint brot ná að minnsta kosti yfir tveggja ára tímabil.

Hann er sagður hafa beitt stúlkuna ólögmætri nauðung, misnotað freklega yfirburði sína gagnvart henni sem og traust hennar og trúnað. Hann hafi gert það með því að hafa í fjölda skipta nauðgað henni, og áreitt hana kynferðislega.

Ákæruliðirnir eru sex talsins. Fjórir þeirra varða nauðganir. Fimm ákæruliðanna varða hver um sig eitt atvik, en einn þeirra varðar nokkur atvik.

Fram kemur að meint brot hafi verið framin í tveimur húsum. Þau munu hafa verið framin í stofu, eldhúsi, svefnherbergi, og öðrum herbergjum í þessum húsum.

Þess er krafist fyrir hönd stúlkunnar að maðurinn greiði henni fjórar milljónir króna auk vaxta vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×