Körfubolti

„Búinn að öskra þannig að ég reyndi að vera upp­byggjandi“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ísak segir leiðtoga liðsins verða að standa storminn betur af sér.
Ísak segir leiðtoga liðsins verða að standa storminn betur af sér. vísir / pawel

Ísak Wium, þjálfara ÍR, leið „mjög illa“ eftir fjórða tap liðsins í jafnmörgum leikjum í Bónus deild karla. ÍR var yfir allan fyrri hálfleikinn í kvöld gegn Þór Þorlákshöfn en gaf verulega eftir í seinni hálfleik og tapaði örugglega að endingu, 73-84.

„Þeir bara spila töluvert betur en við og við hættum að djöflast í vörn sem var uppleggið í leiknum. Við höldum þeim í 33 stigum í fyrri hálfleik en hættum að djöflast í vörn og þá verða sóknirnar erfiðari,“ sagði þjálfarinn strax eftir leik.

Hann reyndi að koma sínum mönnum aftur á rétta braut með leikhléum og breytingum, en ekkert virtist ganga frekar en í fyrstu þremur þremur leikjum tímabilsins.

„Síðustu þrjá leiki er ég búinn að öskra þannig að ég reyndi að vera uppbyggjandi og jákvæður. Við erum með leik hérna en menn deyja og viljinn er kannski ekki meiri en þetta.“

Eftir fjóra leiki og fjögur töp sér þjálfarinn skýrt hvað þarf að breytast.

„Hugarfarið hjá ákveðnum leikmönnum liðsins. Leiðtogarnir þurfa að geta staðið af sér storminn betur og örugglega þjálfarinn líka sko, en við gefumst of oft upp og náum ekki að halda orkustiginu sem við vorum með í fyrri hálfleik,“ sagði Ísak að lokum.

ÍR á leik framundan gegn Álftanesi á útivelli áður en tekið verður á móti ríkjandi bikarmeisturum Keflavíkur. ÍR er úr leik í bikarnum þetta tímabilið eftir tap gegn Val í 32-liða úrslitum síðasta sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×