Innlent

Gerði til­raun til inn­brots með leikfangasverð úr plasti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum í nótt.
Lögregla sinnti nokkuð fjölbreyttum verkefnum í nótt. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning í gær um einstakling sem var að reyna að brjótast inn í húsnæði og með eggvopn á sér. Viðkomandi var handtekinn áður en hann komst inn en í bakpoka hans fannst leikfangasverð úr plasti.

Lögregla var einnig kölluð til vegna þjófnaðar úr verslun en talið er að tveir einstaklingar hafi verið að verki, sem veittust að starfsmanni þegar hann ætlaði að hafa afskipti af þeim. Hlaut starfsmaðurinn minniháttar áverka í ryskingunum.

Önnur tilkynning barst frá annarri verslun um einstakling sem var sagður æstur. Var sá búinn að skemma einhverjar vörur í versluninni þegar lögreglu bar að. Hann fór sína leið eftir skýrslutöku.

Þá var einn handtekinn vegna líkamsárásar í heimahúsi, annar vegna innbrots og tilkynnt um þjófnað úr verslun og skemmdarverk á bifreið.

Nokkrar tilkynningar bárust um umferðaróhöpp en í einu tilviki var um að ræða einstakling sem hjólaði á bifreið. Hjólreiðamaðurinn slasaðist eitthvað en ekki er vitað hversu alvarlega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×