Fótbolti

Launahæsti lands­liðs­þjálfari heims hættur með Sádana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roberto Mancini stoppaði stutt við í Sádi-Arabíu.
Roberto Mancini stoppaði stutt við í Sádi-Arabíu. getty/Fred Lee

Roberto Mancini er hættur sem landsliðsþjálfari Sádi-Arabíu eftir aðeins fjórtán mánuði við stjórnvölinn.

Mikla athygli vakti þegar Mancini hætti sem landsliðsþjálfari Ítalíu í fyrra og var í kjölfarið ráðinn landsliðsþjálfari Sádi-Arabíu. Talið er að hann hafi verið launahæsti landsliðsþjálfari heims.

Mancini stýrði Sádi-Arabíu í tuttugu leikjum en aðeins átta þeirra unnust. Í síðustu landsleikjatörn tapaði liðið fyrir Japan og gerði jafntefli við Barein í undankeppni HM 2026.

Eins og staðan er núna þyrfti Sádi-Arabía að fara í umspil til að komast á HM eftir tvö ár. Liðið er í 3. sæti C-riðils undankeppninnar en efstu tvö liðin komast beint á HM.

Næsti leikur Sádi-Arabíu er gegn Ástralíu eftir þrjár vikur. Ástralir eru í 2. sæti C-riðils með jafn mörg stig og Sádi-Arabar en betri markatölu.

Mancini hefur komið víða við á ferlinum. Hann þjálfaði ítalska landsliðið á árunum 2018-23 og gerði það að Evrópumeisturum 2021.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×