Innlent

Dagur mun ekki skipa oddvitasæti í Reykja­vík

Atli Ísleifsson skrifar
Dagur B. Eggertsson er formaður borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson er formaður borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóri. Vísir/Einar

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og fyrrverandi borgarstjóri, mun ekki skipa efsta sæti á öðrum lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmunum. Viðbúið er að hann skipi annað sætið á framboðslista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Þetta herma heimildir fréttastofu og sömuleiðis að Dagur hafi ekki sóst eftir forystusæti á listanum. Uppstillingarnefnd Samfylkingarinnar í Reykjavík mun kynna tillögur sína að listum fyrir Reykjavíkurkjördæmin tvö á allsherjarfundi Samfylkingarfélaganna í Reykjavík í Þróttaraheimilinu klukkan 11 á morgun. 

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, mun samkvæmt heimildum skipa efsta sætið í sama kjördæmi og Dagur, það er Reykjavíkurkjördæmi norður, og að Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður skipi efsta sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þá mun Ragna Sigurðardóttir, læknir og varaþingmaður, skipa annað sætið á eftir Jóhanni Páli.

Ragna hefur þegar greint frá því á Facebook að hún muni skipa annað sætið í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og fyrrverandi forseti ASÍ, greindi frá því í færslu á Facebook skömmu fyrir klukkan 14 að hann myndi skipa þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í öðru Reykjavíkurkjördæmanna.

Kristrún leiddi lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður í kosningunum 2021 og Helga Vala Helgadóttir lögmaður í Reykjavíkurkjördæmi norður. Helga Vala lét af þingmennsku á miðju kjörtímabili. Samfylkingin náði þremur mönnum inn á þing í kosningunum 2021, þar af tvo í Reykjavíkurkjördæmi norður og einn í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Ekki náðist í Dag B. Eggertsson við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Kosningavaktin: Íslendingar ganga að kjörborðinu

Alþingi Íslendinga hefur verið rofið og kosningar boðaðar þann 30. nóvember næstkomandi. Fylgst verður með nýjustu tíðindinum í aðdraganda kosninga hér í Kosningavaktinni. Ábendingar má senda á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×