Fótbolti

Átta marka jafn­tefli í toppslag ítalska boltans

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Kenan Yildiz kom inn af bekknum og skoraði tvö fyrir Juventus.
Kenan Yildiz kom inn af bekknum og skoraði tvö fyrir Juventus. Jonathan Moscrop/Getty Images

Inter og Juventus gerðu 4-4 jafntefli er liðin mættust í toppslag ítölsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í kvöld.

Piotr Zielinski kom heimamönnum í Inter yfir með marki af vítapunktinum á 15. mínútu áður en Dusan Vlahovic jafnaði metin fyrir gestina fimm mínútum síðar. Timothy Weah skoraði svo annað mark Joventus á 27. mínútu, en Henrikh Mkhitarian jafnaði metin á ný fyrir Inter á 35. mínútu.

Tveimur mínútum síðar skoraði Piotr Zielinski annað mark sitt og þriðja mark Inter, aftur af vítapunktinum, og sá til þess að heimamenn fóru með 3-2 forystu inn í hálfleikshléið.

Síðari hálfleikur var svo ekki minna fjörugur en sá fyrri. Denzel Dumfries kom heimamönnum í 4-2 snemma í síðari hálfleik, en á 61. mínútu kom Kenan Yildiz inn af varamannabekk Juventus og sá átti heldur betur eftir að setja svip sinn á leikinn.

Yildiz minnkaði muninn fyrir gestina á 71. mínútu áður en hann jafnaði metin og tryggði Juventus eitt stig rúmum tíu mínútum síðar.

Niðurstaðan því 4-4 jafntefli í mögnuðum leik. Inter er nú með 18 stig í öðru sæti deildarinnar eftir níu umferðir, fjórum stigum á eftir toppliði Napoli og einu stigi á undan Juventus sem situr í þriðja sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×