„Manchester United hefur lýst yfir áhuga sínum á að fá þjálfarann Rúben Amorim og sagt að þeir séu tilbúnir að greiða tíu milljóna evra klásúluna,“ segir í yfirlýsingu Sporting til kauphallarinnar í Lissabon.
United er í stjóraleit eftir að Erik ten Hag var sagt upp störfum í gær. Hann stýrði United í síðasta sinn í 2-1 tapi fyrir West Ham United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn. Ruud van Nistelrooy, aðstoðarþjálfari United, tók við liðinu til bráðabirgða.
Amorim hefur stýrt Sporting með góðum árangri frá 2020. Undir hans stjórn hefur liðið tvisvar sinnum orðið portúgalskur meistari og unnið deildabikarinn í tvígang.
Amorim, sem er 39 ára, stýrði áður Casa Pia og Braga áður en hann var ráðinn stjóri Sporting í mars 2020.
United er í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og hefur aðeins unnið þrjá af fyrstu níu leikjum sínum. Þá er United í 21. sæti af 36 liðum í Evrópudeildinni.
Næsti leikur United er gegn Leicester City í deildabikarnum annað kvöld. Van Nistelrooy stýrir Rauðu djöflunum í leiknum á Old Trafford.