Körfubolti

Stuðaði Kefla­vík og Frið­rik kallaði „fuck off“

Sindri Sverrisson skrifar
Alexis Morris ögraði Keflvíkingum með léttum dansi í leikslok og það fór illa í Friðrik Inga Rúnarsson þjálfara Keflavíkur.
Alexis Morris ögraði Keflvíkingum með léttum dansi í leikslok og það fór illa í Friðrik Inga Rúnarsson þjálfara Keflavíkur. Stöð 2 Sport

Það var hiti í fólki eftir dramatískan endi á leik Grindavíkur og Keflavíkur í Bónus-deild kvenna í körfubolta, og þjálfari Keflvíkinga kallaði „fuck off!“ að leikmanni Grindavíkur.

Hin bandaríska Alexis Morris, sem áður var með Harlem Globetrotter, átti stjörnuleik fyrir Grindvíkinga í fyrrakvöld og skoraði til að mynda 33 stig, þar af sigurkörfuna í 68-67 sigri gegn Keflavík.

Eftir að lokaflautið gall stríddi Morris Keflvíkingum með því að fara dansandi og veifandi í átt að varamannabekk þeirra. Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, kallaði þá reiður að henni „fuck off!“ eins og sjá má í myndböndunum hér að neðan.

„Er þetta ekki bara hitinn í leiknum og menn æstir? Friðrik Ingi er nú eldri en tvævetur í þessu,“ sagði Hörður Unnsteinsson þegar atvikið var skoðað í Körfuboltakvöldi á Stöð 2 Sport í gærkvöld en brot úr þættinum má sjá hér að neðan. Hallveig Jónsdóttir tók undir það:

„Mér finnst þetta bara geðveikt. Hiti og leiðindi. Hún augljóslega stuðaði Keflavík. Hún er góð í því og kann það, og fólk bregst svona við. Mér finnst þetta bara stemning.“

„Hún var búin að vera með svona handabendingar í átt að Keflavíkurbekknum. Hún var greinilega að reyna að vekja einhver viðbrögð hjá leikmönnum og Friðriki, og það virkaði,“ sagði Hörður og Berglind Gunnarsdóttir tók undir:

„Ég held að með leikmann eins og Alexis Morris þá sé GEGGJAÐ að spila með henni, en ÓÞOLANDI að spila á móti henni. Hún triggerar andstæðinginn eðlilega, og er með einhverjar handabendingar til Frikka sem fóru ekki vel í karlinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×