Handbolti

Sigur­mark þremur sekúndum fyrir leiks­lok á Nesinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bjarni í Selvindi skoraði sigurmark Vals gegn Gróttu.
Bjarni í Selvindi skoraði sigurmark Vals gegn Gróttu. vísir/anton

Eftir að hafa verið undir nær allan leikinn vann Valur Gróttu, 21-22, á Seltjarnarnesi í Olís-deild karla í kvöld. Bjarni í Selvindi skoraði sigurmark Valsmanna þegar þrjár sekúndur voru eftir.

Gróttumenn spiluðu sterkan varnarleik í fyrri hálfleik og Magnús Gunnar Karlsson var í ham í markinu. Seltirningar leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 12-8.

Grótta náði nokkrum sinnum fimm marka forskoti í seinni hálfleik. Þegar tuttugu mínútur voru eftir leiddu heimamenn, 17-12. 

Þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn fjögur mörk, 20-16. Valsmenn unnu hins vegar lokakaflann, 6-1.

Agnar Smári Jónsson jafnaði í 20-20 en Jakob Ingi Stefánsson kom Gróttu aftur yfir, 21-20. Þegar tvær og hálf mínúta var eftir jafnaði Bjarni aftur í 21-21.

Magnús Gunnar varði frá Agnari Smára og Grótta fékk tækifæri til að komast aftur yfir. En Björgvin Páll Gústavsson varði skot Jóns Ómars Gíslasonar.

Valsmenn tóku leikhlé og að því loknu skoraði Bjarni sigurmark þeirra, 21-22. Þetta var í fyrsta sinn sem Valur náði forystunni síðan í stöðunni 5-6 um miðjan fyrri hálfleik.

Úlfar Páll Monsi Þórðarson skoraði sex mörk fyrir Val og þeir Agnar Smári, Bjarni og Viktor Sigurðsson sitt hver þrjú mörkin. Björgvin Páll varði átta skot (44,4 prósent) og Arnar Þór Fylkisson fimm (31,3 prósent).

Jakob Ingi skoraði fimm mörk fyrir Gróttu og Jón Ómar og Atli Steinn Arnarsson fjögur mörk hvor. Magnús Gunnar varði sextán skot í marki Seltirninga, eða 44,4 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Með sigrinum komst Valur upp í 2. sæti deildarinnar. Grótta, sem hefur tapað fjórum leikjum í röð, er í 8. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×