Erlent

Sendir tíu þúsund manna her­lið til Valensía

Kristín Ólafsdóttir og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Fjölda fólks er enn saknað vegna flóðanna og búist er við að tala látinna hækki enn fremur. 
Fjölda fólks er enn saknað vegna flóðanna og búist er við að tala látinna hækki enn fremur.  EPA

Tugþúsundir sjálfboðaliða hafa farið inn á hamfarasvæðin í Valensíahéraði á Spáni til aðstoðar vegna hamfaraflóða sem gengu þar yfir í byrjun vikunnar.

Þó að sjálfboðaliðum sé gott eitt í huga hafa yfirvöld á svæðinu biðlað til almennra borgara að halda sig frá flóðasvæðum, þar sem mannfjöldinn hafi reynst viðbragðsaðilum til trafala. 

Stjórnvöld hafa þótt svifasein í viðbrögðum sínum og sætt gagnrýni fyrir. Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar fyrirskipaði loks stóraukið viðbragð í dag. Tíu þúsund her- og lögreglumenn yrðu sendir til björgunar- og hreinsunarstarfa. Aldrei hafa fleiri spænskir hermenn verið kvaddir til á friðartímum.

Í aðgerðinni felst meðal annars að dæla vatni úr neðanjarðargöngum og bílakjöllurum, þar sem talið er að fólk hafi orðið innlyksa þegar flóðin skullu á.

Sánchez sagði viðbragðið þó ekki nægilega mikið og benti á að enn séu mörg heimili eyðilögð og margir í neyð. Hann hét þrotlausri vinnu her- og lögreglumanna þar til líf allra væri komið í eðlilegt horf á ný. 

Að minnsta kosti 211 manns létu lífið í flóðunum og er búist við að tala látinna haldi áfram að hækka. Í flóðunum eyðilögðust brýr og heilu bæjarfélögin voru án matar og rafmagns vegna þeirra. 

Veðurviðvaranir eru enn í gildi í norðaustur- og suðurhluta Spánar og verða út morgundaginn hið minnsta. Þegar eru um 1700 björgunarmenn að störfum í Valensíahéraði þrátt fyrir að von um að fleiri finnist á lífi fari dvínandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×