Enski boltinn

„Ég held að við getum orðið enn betri“

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Nuno Espirito Santo hefur gert frábæra hluti með Nottingham Forest á þessu tímabili. 
Nuno Espirito Santo hefur gert frábæra hluti með Nottingham Forest á þessu tímabili.  EPA-EFE/PETER POWELL

Nuno Espirito Santo, þjálfari Nottingham Forest sem situr í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar, segir sína menn eiga meira inni. Liðið hefur ekki verið eins ofarlega í töflunni í 26 ár.

„Ég held að við getum orðið enn betri,“ sagði Nuno eftir 3-0 sigur gegn West Ham í dag.

„Að sjálfsögðu. Því lengur sem liðið spilar saman, því betur fara þeir að þekkjast. Við erum með leikmenn sem eru að snúa aftur úr meiðslum. Hópurinn verður bara sterkari og eftir því sem tíminn líður trúi ég að tengingin verði líka sterkari og menn munu hjálpa hvorum öðrum meira. Því trúi ég innilega.“

Þetta er aðeins annað tímabil hans við stjórn en Forest var í fallbaráttu á síðasta tímabili, endaði í sautjánda sæti, sex stigum frá falli. Liðið hefur tekið miklum breytingum síðan þá.

„Við höfum átt slæmar stundir saman og orðið fyrir miklum vonbrigðum. Nú getum við gleðst hvor með öðrum og notið velgengninnar. Við getum verið stoltir af frammistöðunni en leikmenn skilja og vita að það þarf að halda áfram að leggja hart að sér. 

Meira að segja [eins og í leik dagsins] þegar við vorum manni fleiri, þá héldu þeir áfram. Þeir héldu áfram að sækja til sigurs og skoruðu stórkostleg mörk sem við fengum að njóta – það er það sem fótbolti snýst um,“ sagði Nuno að lokum.

Nottingham Forest er í þriðja sæti með nítján stig, fjórum stigum frá Manchester City og sex stigum frá toppliði Liverpool. Forest mætir Newcastle í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×