Fótbolti

Emilía Kiær komst ekki á blað í toppslagnum

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu.
Emilía Kiær Ásgeirsdóttir hefur verið einn besti leikmaður liðsins á tímabilinu. FC Nordsjælland

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir spilaði níutíu mínútur í toppslag dönsku úrvalsdeildarinnar þar sem lið hennar Nordsjælland tapaði 2-1 á útivelli gegn Fortuna.

Nordsjælland er ríkjandi meistari og var í efsta sæti deildarinnar fyrir leik. Fortuna jafnaði liðið að 27 stigum með sigrinum og er með betri markatölu.

Eftir ellefu umferðir er Alma Aagard markahæst í deildinni með átta mörk. Emilía fylgir þar á eftir með sjö mörk.

Emilía Kiær er næstmarkahæst í deildinni á eftir liðsfélaga sínum Ölmu Aagard. Hvorug komst á blað í dag.

Anna Christine Walter jafnaði metin fyrir Nordsjælland í upphafi seinni hálfleiks eftir að Joy Omewa hafði tekið forystuna fyrir Fortuna. Sigurmark heimakvenna skoraði Shiho Matsubara svo á 60. mínútu.

Ellefu umferðir eru búnar og fjórar umferðir eru eftir af deildinni áður en úrslitakeppnin hefst þar sem leiknir eru tíu leikir til viðbótar. Nordsjælland og Fortuna eru með níu stiga forskot á Bröndby í þriðja sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×