Lífið

Tapaði miklum peningum í vínbransanum

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Dóri DNA fór að pæla í vínum, opnaði vínbar en er nú farinn að einbeita sér að gríninu aftur. Grín gefur betur í vasann en vín.
Dóri DNA fór að pæla í vínum, opnaði vínbar en er nú farinn að einbeita sér að gríninu aftur. Grín gefur betur í vasann en vín. Vísir/Vilhelm

Halldór Laxness Halldórsson, Dóri DNA, segist hafa tapað miklum peningum með því að taka sér hlé frá uppistandi og hefja rekstur vínbars við Hverfsigötu. Lærdómurinn hafi verið mikilvægur.

Þetta kemur fram í viðtali við Dóra í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Hann rifjar upp þegar hann hætti í uppistandi og opnaði vínbarinn Mikka ref á Hverfisgötu til móts við Þjóðleikhúsið.

„Ég tapaði mikl­um pen­ing­um og komst að því í hverju ég er góður og hverju ekki. Ég fann að ég var að far­ast þegar ég tók mér þessa pásu frá uppist­and­inu og það vantaði bara eitt­hvað. Ég hætti líka á Twitter á sama tíma og það var Covid og það bara sauð á mér. Eft­ir þetta tíma­bil fór ég af stað með mína fyrstu sóló-sýn­ingu og ég held að ég geti sagt núna að ég vilji aldrei hætta uppist­andi. Þetta eru al­gjör for­rétt­indi og mér líður bara eins og ég verði að gera þetta á meðan ég get það,“ segir Dóri.

Sleppti því að senda reikning

Hann hefur meðal annars komið fram á Púðursykri í Sykursalnum undanfarnar vikur og mánuði. Hann rifjar upp bæði góða tíma og þá erfiðu í uppistandi.

„Ég hef al­veg skitið vel á mig í uppist­andi og það er í raun nauðsyn­legt. Að éta skít og þurfa að læra af því. Þetta ger­ist þegar þú ert ekki í sömu orku og fólkið á staðnum og maður lær­ir af því. En eitt af því sem ger­ir mig að ör­ugg­um uppist­and­ara er að ég hef skitið á mig. Það er nauðsyn­leg­ur hluti af ferl­inu. Ég hef líka verið í aðstöðu þar sem ég var að skemmta og áttaði mig bara á því að aðstæðurn­ar væru ekki boðleg­ar. Þá fór ég bara út og keyrði í burt og sleppti því að senda reikn­ing fyr­ir „gigg­inu“.“

Hann segir frá því hvernig brugðið geti til beggja vona í gríninu. Það geti sannarlega misheppnast.

„Ég hef hef tekið veru­lega tæpt efni og sal­ur­inn velt­ist um af hlátri. En svo tók ég sama efni viku eft­ir og það hló eng­inn og það var talað um það á bloggi. Ég tók þetta efni ekki aft­ur. Það er þunn lína að þora að gera það sem maður vill, en kunna líka að lesa sal­inn og sam­fé­lagið hverju sinni. Ef fólki finnst eitt­hvað alls ekki fyndið, þá er það lík­lega ekki málið. Í sam­hengi gríns má allt, en þú verður að díla við það sjálf­ur ef það mis­heppn­ast. Þú átt ekki rétt á að segja allt sem þér dett­ur í hug, bara ef ske kynni að eitt­hvað af því væri fyndið.“

Notar lyf sem dregur úr matarlyst

Dóri er meðal fjölmargra sem hafa glímt við ofþyngd og notar nú líftæknilyf til að draga úr matarlyst.

„Ég hef verið í sér­stöku ferðalagi inn á við á þessu ári. Ég byrjaði á dönsku líf­tækni­lyfi sem ég sprauta mig í bumb­una með. Ég ætlaði ekk­ert að byrja á því. Ég fór til lækn­is út af öðru, en endaði á þessu lyfi. Fyr­ir mig hef­ur þetta verið stór­merki­legt. Ég er und­ar­lega sam­an­sett­ur, það hafa oft fylgt mér áhyggj­ur og dep­urð og ég borða bæði þegar ég er leiður og glaður og ég hef átt í óeðli­legu sam­bandi við mat og drykk, þó að ég sé ekki alkó­hólisti. Þetta hef­ur verið plástur­inn á sár­in í lífi mínu, en þetta lyf hef­ur tekið það í burtu að ég noti mat til að laga mig. En svo er haus­inn eft­ir og ég er enn að eiga við hann og þess vegna er ég á þessu ferðalagi inn á við. Ég held að ég sé ekki að eiga við nein stór­áföll, en það er stund­um sagt að ég hafi fæðst með áhyggju­svip.“

Dóri hefur vakið athygli í þáttunum Ein stjarna á Stöð 2 þar sem þeir Steindi Jr. ferðast til borga í Evrópu og heimsækja staði sem fá skelfilega gagnrýni hjá viðskiptavinum. Dóri er yfirleitt með nóg fyrir stafni.

„Ég er á stað núna þar sem ég er bú­inn að gera of mikið og það eru marg­ir að bíða eft­ir ein­hverju frá mér. Ég hef tölu­vert minni tíma en ég hafði og ég hef und­an­farið verið að kynn­ast ein­hverfu í gegn­um yngsta son minn. Hann var greind­ur ein­hverf­ur í sum­ar og það er bæði tíma­frekt og orku­frekt ferli að skilja það og vinna með það. Þú ert eig­in­lega að ná mér á miðjum kross­göt­um og akkúrat núna finn ég að eitt­hvað verður að víkja. Ég er aðeins byrjaður að brenna kertið á báðum end­um og finn það. Fólk held­ur kannski að ég lifi ein­hverju dóp­sala­lífi, sé bara að fara í rækt­ina og vera á ferðinni og hitta ein­hverja gaura og gera uppistand. En staðan er bara sú að ég vakna alltaf með börn­un­um mín­um alla morgna og er mætt­ur á skrif­stof­una klukk­an 9. Ég er bara ónýt­ur ef ég geri það ekki.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×