Erlent

Evrópu­sam­starf verður að Evrópu­vanda­máli

Kjartan Kjartansson skrifar
María Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, segir breytinguna á nafni evrópusamvinnusviðsins skýrast af frosti í samskiptum við Evrópu.
María Zakharova, talskona rússneska utanríkisráðuneytisins, segir breytinguna á nafni evrópusamvinnusviðsins skýrast af frosti í samskiptum við Evrópu. Vísir/EPA

Svið rússneska utanríkisráðuneytisins sem fer með samskipti við Evrópusambandið og NATO verður ekki lengur kennt við Evrópusamstarf heldur „Evrópuvandamál“. Talskona ráðuneytisins segir nafnbreytinguna endurspegla breytingar í stöðu alþjóðamála.

Áður hét þessi hluti utanríkisráðuneytisins Evrópusamvinnusviðið. Evrópska útgáfa Politico hefur eftir rússneskum fjölmiðlum að nafninu hafi verið breytt í „Evrópuvandamálasvið“ í síðustu viku.

María Zakharova, talskona utanríksráðuneytisins, sagði að augljós hnignun „fjölhliðasamstarfs“ í Evrópu væri hluti af ástæðunni fyrir breytingunni.

Rússnesk stjórnvöld hafa gert sjálf sig að hálfgerðum útlögum á alþjóðavettvangi undanfarin ár. Vestræn ríki lögðu ýmsar refsiaðgerðir á þau vegna innlimunar Krímskaga árið 2014 en nær algert frost hefur verið í samskiptum Rússlands og Evrópu eftir að allsherjarinnrásin í Úkraínu hófst fyrir tveimur árum.

Kremlverjar hafa brugðist við refsiaðgerðum með því að draga sig úr Evrópuráðinu og í sumar hættu þeir þátttöku í þingi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×