Fótbolti

Vand­ræði Madríd halda á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aurélien Tchouaméni fór meiddur af velli gegn AC Milan.
Aurélien Tchouaméni fór meiddur af velli gegn AC Milan. Michael Regan/Getty Images

Franski miðvallarleikmaðurinn Aurélien Tchouaméni verður frá keppni næstu fjórar vikurnar hið minnsta eftir að togna á ökkla. Hann hefur verið í lykilhlutverki hjá Evrópu- og Spánarmeisturum Real Madríd sem hafa átt erfitt uppdráttar á leiktíðinni.

Fransmaðurinn var í byrjunarliði Real Madríd í gær þegar AC Milan kom í heimsókn. Tchouaméni fór hins vegar meiddur af velli í hálfleik og í hans stað kom samlandi hans Eduardo Camavinga inn á miðsvæðið.

Hinn 24 ára gamli miðjumaður hafði átt erfitt uppdráttar í leiknum og tapaði boltanum sem leiddi til þess að Álvaro Morata, fyrrum leikmaður Real Madríd, kom gestunum 2-1 yfir undir lok fyrri hálfleiks.

Það hefur nú verið greint frá því að Tchouaméni verði frá næstu fjórar vikurnar og missi því af leik Real gegn Osasuna um helgina og svo landsleikjum Frakka síðar í mánuðinum. Hann verður jafnframt líklega enn frá keppni þegar Real mætir Leganes, Getafe og Liverpool eftir landsleikjahlé.

Tchouaméni hefur byrjað 10 af 11 leikjum Real í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni, og þar af þrjá í Meistaradeildinni. Liðið hefur hins vegar byrjað tímabilið illa á eigin mælikvarða og er nú þegar níu stigum á eftir toppliði Barcelona sem hefur leikið leik meira heima fyrir. Þá hefur Real tapað tveimur af fjórum leikjum sínum í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×