Fótbolti

Á­kvörðun þjálfarans að kalla Mbappé ekki inn í landsliðshópinn

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Kylian Mbappé hefur átt erfitt uppdráttar hjá Real Madrid og var ekki valinn í franska landsliðið þrátt fyrir að vilja taka þátt í verkefninu. 
Kylian Mbappé hefur átt erfitt uppdráttar hjá Real Madrid og var ekki valinn í franska landsliðið þrátt fyrir að vilja taka þátt í verkefninu.  Ian MacNicol/Getty Images

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakklands, tilkynnti hópinn sem mun koma saman fyrir leiki gegn Ísrael og Ítalíu síðar í mánuðinum. Kylian Mbappé var ekki kallaður til, þrátt fyrir að vera heill heilsu.

Mbappé tók ekki heldur þátt í síðasta landsliðsverkefni, leikjum gegn Ísrael og Belgíu í október, en hann sagðist þá vera að jafna sig af meiðslum og hafi ekki viljað taka neinar áhættur.

Meðan landsliðsglugganum stóð fór hann í skemmtiferð til Svíþjóðar, hann var síðan kærður fyrir nauðgun.

Deschamps segir þetta ákvörðun sem hann tók sjálfur, Mbappé hafi viljað vera með í verkefninu og þá hafi kæran sem hann stendur frammi fyrir ekki haft nein áhrif.

Verklagsreglur franska knattspyrnusambandsins eru frábrugðnar hinu íslenska, þar sem leikmenn með kæru yfir höfði sér mega ekki þátt í verkefnum landsliðsins.

„Ég hef rætt við hann, þetta er ákvörðun sem ég tók bara fyrir þessa tvo leiki. Ég tel þetta fyrir bestu og ætla ekki að ræða málið frekar en ég get sagt ykkur tvennt: Kylian vildi koma og þetta tengist ekkert hans málum utan vallar, þar sem hann er saklaus uns sekt er sönnuð. Þetta er mín ákvörðun, ég ber ábyrgð á henni,“ sagði Deschamps í viðtali við RMC Sport.

Mbappé hefur átt erfitt uppdráttar á sínu fyrsta tímabili hjá Real Madrid, en hann gekk til liðs við spænska félagið frá PSG í heimalandinu í sumar. Hann hefur skorað átta mörk í fimmtán leikjum, en aðeins eitt mark í síðustu átta leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×