Það sem af er ári hafa 519 ökumenn verið ákærðir fyrir að aka yfir á rauðu ljósi, flestir í síðasta mánuði þegar 81 ökumaður var gripinn við verknaðinn. Rúmlega fimm hundruð til viðbótar hafa verið gómaðir í símanum undir stýri á þessu ári. Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu segir embættið hafa miklar áhyggjur af þessari þróun.
„Heilt yfir í umferðinni í dag, er fólk bara annars hugar. Það er mikið áhyggjuefni. Fólk er með ýmsar skýringar, sá ekki að það var komið rautt ljós eða er að flýta sér og svo framvegis. En þetta er bara áhyggjuefni að fólk virðist vera annars hugar í umferðinni. Við erum með of mörg umferðarslys síðustu misseri, við erum að verða vör við að ökumenn eru mjög mikið í farsímanum, jafnvel að horfa á myndir eða tónleika á meðan það er að aka um götur borgarinnar. Við verðum að taka okkur til og vera í núinu. Vera í bara í umferðinni,“ segir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Í fréttinni fyrir neðan má sjá fjölda tilvika þar sem fólk keyrir yfir á rauðu ljósi.
Hvaða fólk er það sem er helst í símanum undir stýri, er það ungt fólk eða af öllum aldri?
„Þetta er allur aldur. Maður verður einna mest var við það að eldra fólk er ekki í símanum. Það er einfaldlega ekki alið upp við þetta. En þessir yngstu vegfarendur og upp í miðjan aldur, það er mjög algengt að við séum að sjá þetta aldursbil,“ segir Árni.
Hann segir síðustu og fyrstu mánuði ársins ávallt þá erfiðustu í umferðinni í snjókomu og myrkri.
„Því miður verða mjög alvarleg slys þessa dimmustu mánuði,“ segir Árni.