Fótbolti

Ingi­björg á skotskónum og Cecilía Rán varði víti og hélt hreinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ingibjörg tryggði Bröndby sigur.
Ingibjörg tryggði Bröndby sigur. Marco Steinbrenner/Getty Images

Það var nóg um að vera hjá íslensku knattspyrnufólki í hinum og þessum deildum í Evrópu.

Í efstu deild kvenna í Danmörku mætti Íslendingalið Bröndby til Köge og mætti þar heimakonum í HB Köge. Fór það svo að gulklæddir gestirnir fóru heim með stigin þrjú þökk sé sigurmarki Ingibjargar Sigurðardóttur undir lok fyrri hálfleiks. 

Ingibjörg og Hafrún Rakel Halldórsdóttir voru báðar í byrjunarliði Bröndby og spiluðu allan leikinn í 1-0 sigri Bröndby sem er nú með 21 stig í 3. sæti, níu stigum minna en topplið Nordsjælland og Fortuna Hjörring.

Í efstu deild kvenna á Ítalíu stóð Cecilía Rán Rúnarsdóttir vaktina í marki Inter þegar liðið lagði Lazio 1-0. Heimakonur í Inter komust yfir eftir hálftímaleik og var 1-0 yfir þegar gengið var til búningsherbergja.

Þegar tuttugu mínútur lifðu leiks fengu gestirnir vítaspyrnu. Megan Connolly fór á punktinn en Cecilía Rán gerði sér lítið fyrir og varði vítaspyrnu Connolly og sá þar með til þess að Inter hélt hreinu í leiknum og vann 1-0 sigur.

Að loknum níu leikjum loknum er Inter með 18 stig, sjö stigum á eftir toppliði Juventus.

Í Svíþjóð tapaði Brommapojkarna 2-1 fyrir Malmö á útivelli. Hlynur Freyr Karlsson lagði upp mark gestanna í leiknum.

Hlynur Freyr og félagar enda tímabilið í 10. sæti með 34 stig.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×