Erlent

Sakar Orbán um „ung­verskt Watergate-hneyksli“

Kjartan Kjartansson skrifar
Tisza-flokkur Peters Magyar hefur mælst stærri en FIdesz-flokkur Orbán í nýlegum skoðanakönnunum. Næst verður kosið í Ungverjalandi árið 2026.
Tisza-flokkur Peters Magyar hefur mælst stærri en FIdesz-flokkur Orbán í nýlegum skoðanakönnunum. Næst verður kosið í Ungverjalandi árið 2026. Vísir/EPA

Leiðtogi ungversku stjórnarandstöðunnar sakar ríkisstjórn Viktors Orbán forsætisráðherra um að njósna um sig og aðstoðarmenn sína. Líkir hann hlerununum við Watergate-hneykslið sem felldi Richard Nixon, fyrrum Bandaríkjaforseta.

Péter Magyar, leiðtogi Tisza-flokksins, bar ásakanir sínar fram á fréttamannafundi í Búdapest í gær. Fullyrti hann að þjóðhollir leyniþjónustumenn hefðu upplýst sig um að íbúð sín, skrifstofur flokksins og farartæki hefðu verið hleruð um margra mánaða skeið. 

Orbán sjálfur hefði vitað af hlerunum. Magyar lagði þó ekki fram frekari sannanir fyrir máli sínu.

Sakaði Magyar ríkisstjórnina um að ætla að koma höggi á sig með blöndu af raunverulegum upptökum og hljóðbrotum sem væru fölsuð með hjálp gervigreindar. Þá hélt hann því fram að Fidesz-flokkur Orbán hefði greitt fyrrverandi kærustu sinni til þess að taka upp samtöl við hann á laun.

„Ríkisstjórnin vill þagga niður í okkur en það er ekki hægt að þagga niður í milljónum manna,“ sagði Magyar sem kallaði njósnirnar „ungverskt Watergate-mál“.

Watergate-hneykslið snerist að hluta til um símahleranir skósveina Richards Nixon um Demókrataflokkinn í Bandaríkjunum á áttunda áratug síðustu aldar. Nixon sagði af sér embætti vegna tilrauna sinna til þess að hylma yfir óþverrabrögð sem endurkjörsnefnd hans beitti árið 1974.

Talsmaður ríkisstjórnarinnar gerði lítið úr ásökunum Magyar. „Einhver hefur horft á of margar njósnamyndir í leiðindum sínum,“ hefur Politico eftir Eszter Vitályos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×