Skoðun

Blóðmeramálið til um­boðs­manns

Árni Stefán Árnason skrifar

Íslenskar blóðmerar njóta sérstaklega mikillar samúðar hjá mér af öllum íslenskum dýrum í eldi sem þurfa að þjást í þágu mannsins.

Vísir greinir frá að blóðmeramálið hafa ratað á borð nýs umboðsmanns Alþingis, Kristínar Benediktsdóttur, það sé í skoðun og óskað hafi verið frekari gagna. Þetta minnir mig á forna tíð, þegar frumkvöðull íslenskrar dýraverndar, Tryggvi Gunnarsson (1835-1917), kallaði eftir konum til dýraverndar, þær hefðu einfaldlega djúpa tilfinningu fyrir dýravernd og tilfinningum dýra.

Hlutverk umboðsmanns er m.a. í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis. Ef umboðsmaður verður þess var að meinbugir séu á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum skal hann tilkynna það Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn. - Þetta tel ég að eigi við um heimild til blóðtöku úr fylfullum merum.

Ætla má, þegar fullnægjandi gögn hafi borist, að umboðsmanni ofbjóði. . Það er því fagnaðarefni að ætla megi að umboðsmaður skoði að láta málið sig varða. Ég trúi því að umboðsmaður bendi löggjafanum á að blóðtakan stangist á við lög um velferð dýra og nýtt þing breyti lögum um velferð dýra og banni blóðtöku til framleiðslu hormóns sem leiðir til áframhaldandi dýraníðs í svínaeldi.

Síðasti umboðsmaður stakk slíkum erindum undir stól, vildi engin afskipti hafa ef ég man rétt. Sagði blóðtökuleyfið vera með samþykkti löggjafans. Það væri við hann að eiga ekki sig.

Ríkisendurskoðandi sneiddi, með slökum rökum, framhjá blóðmeramálinu í úttekt sinni á Matvælastofnun fyrr á þessu ári.

Löggjafinn hefur komið því svo fyrir að hann hefur svipt almenning stjórnarskrárvörðu tjárningarfrelsi sínu með því að að lögfesta að einungis MAST sé heimilt að kæra illa meðferð dýra.

Deila má um getu MAST til ákvarðanatöku í slíkum málum. Ríkisendurskoðandi taldi MAST fara alltof hægt í sakirnar.

Þá eru hagsmunatengsl og mögulegir árekstar innanbúðarmanna hjá MAST klíkunnu, sem oft er svo nefnd, við hagsmunaaðila í blóðmeraníðinu augljósir. Pólitísk afskipti af starfsháttum MAST eru líka þekkt, sem dregur úr trú og áreiðanleika MAST við að sinna dýravernd.

Það er því fagnaðarefni að opinber aðili, umboðsmaður Alþingis, hugi að því að taka blóðmeramálið í fang sitt og ýtir það máske undir þá tillögu mína í síðustu grein að blóðmeramálið verði að kosningamáli. Þörf er á umræðu og afstöðu frambjóðenda um málið. Engin hefur þorað í djúpu laug dýraverndarumræðunnar fyrir þessar kosningar ennþá.

Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×