Innlent

Vegir enn lokaðir á Vest­fjörðum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Skjáskot af umferdin.is sem sýnir lokanir á Vestfjörðum.
Skjáskot af umferdin.is sem sýnir lokanir á Vestfjörðum.

Vegirnir í Ísafjarðardjúpi og vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði eru enn lokaðir vegna skriðuhættu og þá er Bíldudalsvegur í sundur og því lokaður frá flugvellinum og að gatnamótunum að Dynjandisheiði.

Í morgun var vegurinn um Súðavíkurhlíð þó opnaður. 

Farið verður í að kanna aðstæður í Ísafjarðardjúpi og vinna að opnun með morgninum en óvíst er hvenær hægt verður að opna að því er segir á heimasíðu Vegagerðarinnar. Þá er vegurinn um Eyrarhlíð í Skutulsfirði, á milli Ísafjarðar og Hnífsdals, enn lokaður eftir skriðuföll gærdagsins. 

Samkvæmt upplýsingum frá náttúruvakt Veðurstofunnar hefur ekkert frést af frekari skriðuföllum á Vestförðum í nótt. Það komi þó betur í ljós í birtingu. 

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum beindi því til íbúa ofarlega við Hjallaveg á Ísafirði að þeir myndu ekki dvelja í þeim herbergjum sem snúa upp í hlíðar Eyrarfjalls. Lögreglan segir að þeta hafi verið gert að beiðni Veðurstofunnar eftir skriðuföll gærdagsins. Ekki var talin ástæða til að rýma húsin heldur var einungis um varúðarráðstöfun að ræða. 

Þá var því einnig beint til fólks að vera ekki á ferð ofan við Hjallaveg, ofan við varnargarðan fyrir ofan bæinn eða í fjallshliðum almennt uns veðufar breytist. Að auki er óheimilt að fara að aurskriðunum sem fallið hafa á veginum um Eyrarhlið, hvort sem það er akandi eða fótgangandi. 

Gular viðvaranir frá Veðurstofu Íslands eru enn í gildi fram eftir degi. Vegfarendur eru beðnir að kynna sér aðstæður áður en lagt er af stað milli landshluta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×