Handbolti

Ís­lenski risinn sem gnæfir yfir Porto: „Myndi ekki vilja gera neitt annað“

Aron Guðmundsson skrifar
Þorsteinn Leó hefur farið af stað með krafti í liði Porto
Þorsteinn Leó hefur farið af stað með krafti í liði Porto Vísir/Anton Brink

Ís­lenski lands­liðs­maðurinn í hand­bolta, Þor­steinn Leó Gunnars­son, hefur stimplað sig inn í at­vinnu­mennskuna af krafti með liði sínu Porto. Þor­steinn, sem minnti ræki­lega á sig með skotsýningu í lands­leik Ís­lands gegn Bosníu á dögunum, tók skrefið út í at­vinnu­mennskuna og samdi við sigursælasta lið Portúgal, Porto fyrir yfir­standandi tíma­bil frá Aftur­eldingu þar sem hann hefur náð að fóta sig vel og býr úti ásamt kærustu sinni.

„Þetta hefur verið æðis­legt en meiri vinna en maður bjóst við,“ segir Þor­steinn í sam­tali við Vísi. „Þetta er gríðar­leg vinna. Vakna snemma, langir dagar, mikið af ferðalögum sem er mjög þreytt. Þau eru svaka­lega löng.

Maður reynir að læra tungumálið þarna. En það er auðvitað flókið. Lífið er annars yndis­legt þarna úti hjá okkur. Við erum bara helvíti ánægð með þetta. Al­gjört ævintýri og draumur fyrir mig að vera at­vinnu­maður. Ég myndi ekki vilja gera neitt annað.“

„Tel mig geta spilað á móti hvaða leikmönnum sem er“

Fyrsta skrefið af vonandi mörgum á farsælum at­vinnu­manna­ferli Þor­steins sem hefur látið til sín taka í efstu deild Portúgals þar sem að hann er marka­hæsti leik­maður Porto til þessa með 60 mörk í ellefu leikjum. Töl­fræði sem gerir þennan ís­lenska risa upp á 208 sentí­metra að þriðja marka­hæsta leik­manni deildarinnar og það í einu af þremur stærstu félögum Portúgals. 

Þorsteinn Leó Gunnarsson lék með Porto í Kaplakrika á dögunum gegn Val í Evrópudeildinni.vísir/Anton

„Það eru mjög fáir sem eru í minni hæð þarna úti. Það er dálítið mikið horft upp til manns þarna. Þeir spila allt öðru­vísi hand­bolta. Mjög hraðan hand­bolta og eru mikið í klippingum. Jú þessi bolti hentar mér, þeir eru lá­vaxnir eiga ekki auðvelt með að blokkað mig og þar fram eftir götunum. Hentar mér vel að geta spilað á móti þannig leik­mönnum. Ég tel mig hins vegar geta spilað á móti hvaða leik­mönnum sem er.“

Stefnir á Ólympíuleika með systur sinni

Og Þor­steinn er ekki sá eini í sinni fjöl­skyldu sem er að gera gott mót sem íþrótta­maður. Systir hans Erna Sól­ey Gunnars­dóttir varð fyrst ís­lenskra kvenna til að keppa í kúlu­varpi á Ólympíu­leikum síðastliðið sumar í París. Þau syst­kinin stefna á Ólympíu­leika saman í framtíðinni.

Erna Sóley kastar kúlunni á Ólympíuleikunum í París síðastliðið sumar.Vísir/Getty

„Það er langt síðan að við ræddum þetta fyrst. Við ætluðum okkur að vera saman á síðustu Ólympíu­leikum. Hún komst, ekki ég. Þá er það bara næsta mark­mið að vera bæði á Ólympíu­leikunum í Bandaríkjunum, Los Angeles.

Þú hlýtur að hafa horft stoltur á hana á Ólympíu­leikunum?

„Jú ég var mjög stoltur af henni. Hún stóð sig bara prýði­lega vel . Ég er mjög stoltur af henni.“


Tengdar fréttir

Þor­steinn Leó fór ham­förum

Handknattleiksmaðurinn Þorsteinn Leó Gunnarsson átti stórleik í liði Porto sem vann gríðarlega öruggan 22 marka sigur á Nazaré Dom Fuas AC í efstu deild Portúgals. Þorsteinn Leó skoraði fjórðung marka Porto sem skoraði 44 mörk í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×