Talið er líklegt að Úrúgvæinn fái sjö leikja bann fyrir ummæli sín í viðtali í heimalandinu í sumar. Þar sagði hann að Son og allir samherjar hans í suður-kóreska landsliðinu litu eins út.
Sjónvarpsmaðurinn sem tók viðtalið bað Bentancur um að gefa sér Tottenham-treyju frá Son.
„Viltu treyjuna frá Sonny eða frændum hans? Þeir líta svo gott sem allir eins út,“ sagði Bentancur.
Hann bað Son afsökunar á ummælum sínum auk þess að birta afsökunarbeiðni á samfélagsmiðlum sínum.
Þrátt fyrir það kærði enska knattspyrnusambandið hann fyrir niðrandi ummæli og fyrir að koma óorði á leikinn. Bentancur fær líklega að minnsta kosti sex leikja bann en það gæti orðið sjö leikir.
Bentancur hefur verið í lykilhlutverki hjá Tottenham á tímabilinu og leikið fjórtán leiki í öllum keppnum í vetur.