Ísland og Wales mætast í Cardiff í kvöld klukkan 19:45, í beinni útsendingu og opinni dagskrá á Stöð 2 Sport. Ítarleg umfjöllun verður á Vísi.
Ísland er í B-deild, í riðli með Tyrklandi, Wales og Svartfjallalandi, en það er ljóst að Ísland getur aðeins endað í 2. eða 3. sæti riðilsins og það veltur aðeins á leiknum við Wales í kvöld.
Það er því einnig ljóst að Ísland mun leika í umspili í lok mars. Það er bara spurning hvað verður í húfi í þeim umspilsleikjum (og reyndar er einnig spurning hvar Ísland mun spila sinn heimaleik í þessu umspili, vegna vallarmála hér á landi).
Belgar erfiðastir í efra umspilinu
Með sigri í kvöld fer Ísland í umspil um að komast upp í A-deild og mætir þar einu af liðunum sem enda í 3. sæti síns riðils í núverandi A-deild.
Þetta eru Skotland, Belgía, Ungverjaland og Serbía. Af þessum liðum eru Belgar langefstir á heimslista.
Gætu mætt Slóvökum aftur
Ef Íslandi tekst ekki að vinna í kvöld fer liðið í umspil við lið úr C-deild, um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar á næstu leiktíð.
Liðin sem enda í 2. sæti síns riðils í C-deild eru: Slóvakía, Kósovó, Búlgaría, Armenía.
Af þessum liðum eru Slóvakar, sem Ísland mætti í undankeppni EM á síðasta ári, efstir á heimslistanum. Það munaði litlu að Færeyjar kæmust í þetta umspil en liðið endaði einu stigi á eftir Armeníu í riðli fjögur. Svíar enduðu þremur stigum fyrir ofan Slóvaka í riðli eitt og komust beint upp í B-deildina.
Dregið á föstudag
Dregið verður í umspilið í höfuðstöðvum UEFA í Sviss á föstudaginn.
Þar verður einnig dregið í 8-liða úrslit keppninnar en þar spila bestu lið Evrópu, eða sem sagt liðin sem enduðu í tveimur efstu sætum sinna riðla í A-deildinni.
Í efri styrkleikaflokki fyrir dráttinn eru: Portúgal, Frakkland, Þýskaland og Spánn.
Í neðri styrkleikaflokki eru: Króatía, Ítalía, Holland og Danmörk.