Handbolti

Fæddur árið 2007, brillerar í efstu deild og fann upp á Orra Ó­stöðvandi

Stefán Árni Pálsson skrifar
Baldur og Bjarni eru saman í ÍR, feðgar. Pabbinn þjálfarinn og sonurinn sá markahæsti.
Baldur og Bjarni eru saman í ÍR, feðgar. Pabbinn þjálfarinn og sonurinn sá markahæsti. Vísir/Bjarni

Hann er sonur þjálfarans, fæddur árið 2007 en er markahæsti leikmaðurinn í efstu deild í handbolta hér á landi. Baldur Fritz Bjarnason ætlar sér alla leið.

Baldur er leikmaður ÍR og þegar níu umferðir voru búnar í Olís-deild karla var hann með 8,8 mörk að meðaltali í leik, meira en allir aðrir í deildinni. Baldur er eins og margir vita sonur þjálfara ÍR-liðsins Bjarna Fritzsonar. Bjarni, faðir hans, var sjálfur markakóngur deildarinnar á sínum tíma. Bjarni varð markakóngur tímabilið 2011-12 þegar hann skoraði 163 mörk eða 7,7 mörk í leik fyrir lið Akureyrar.

„Ég hef trú á sjálfum mér og hef verið að leggja inn mikla vinnu,“ segir Baldur en hann lék í næstefstu deild á síðasta tímabili og var partur af ÍR-liðinu sem komst upp í efstu deild síðasta vor.

„Svo þegar leið á tímabilið þá bætti maður sig og þá jókst hlutverkið. Ég stefni alla leið á toppinn í handbolta en er að reyna að pæla ekkert svo mikið í því núna, bara einn dagur í einu. Það hefur alltaf verið draumur að komast út í atvinnumennskuna,“ segir Baldur.

Fékk smá í magann

„Þetta er bara stór hópur hjá okkur sem er að koma inn. Strákar sem eru fæddir árið 2007 og 2006. Þeir eru að fá ótrúlega stórt hlutverk og í sumar, þegar við náðum kannski ekki að sækja þá leikmenn sem við vildum þá viðurkenni ég það að ég fékk aðeins fyrir hjartað og hugsaði, ó nei þetta verður erfitt,“ segir Bjarni.

Bjarni er höfundur barnabókanna um Orra Óstöðvandi en sagan af því hvernig sá karakter varð til tengist einmitt Baldri.

„Það var í raun og veru Baldur sem fékk hugmyndina af Orra Óstöðvandi. Ég bjó til sjálfstyrkingarbók og Baldur las hana, nema hann las bara fyrstu fimm blaðsíðurnar og síðan hætti hann því honum fannst hún ekkert sérstaklega skemmtileg,“ segir Bjarni og hlær. Rætt var við þá feðga í Sportpakkanum á Stöð 2 í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×