Enzo Maresca, knattspyrnustjóri Chelsea, greindi frá þessu á blaðamannafundi í dag en Chelsea á fyrir höndum leik við Leicester í hádeginu á laugardag, þegar keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst að nýju.
„Hann [James] fann fyrir einhverju. Hann þarf að hvíla í þessari viku, það er ljóst, og svo sjáum við til eftir það,“ sagði Maresca og bætti við að um meiðsli í læri væri að ræða.
Meiðslasaga James, sem er að verða aðeins 25 ára gamall, er orðin afar löng. Eftir að hafa verið frá keppni í yfir 200 daga á síðustu leiktíð, vegna meiðsla, hóf James yfirstandandi leiktíð einnig meiddur og hefur aðeins spilað fjóra deildarleiki.
Hann lék tíu deildarleiki á síðustu leiktíð og sextán tímabilið þar á undan.
Fyrir utan James ættu allir leikmenn Chelsea að vera klárir í slaginn um helgina. Cole Palmer og Levi Colwill drógu sig úr enska landsliðshópnum í síðustu viku, líkt og Frakkarnir Wesley Fofana og Malo Gusto, en Maresca sagði meiðslastöðuna mjög góða fyrir utan James.