Neytendur

ASÍ for­dæmir hækkun vaxta og Þór­hallur sendi bankanum bréf

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórhallur Gunnarsson fjölmiðlamaður skrifaði Íslandsbanka bréf eftir hækkun bankans á vöxtum á verðtryggðum lánum eftir lækkun stýrivaxta. Forseti ASÍ er þungt hugsi.
Þórhallur Gunnarsson fjölmiðlamaður skrifaði Íslandsbanka bréf eftir hækkun bankans á vöxtum á verðtryggðum lánum eftir lækkun stýrivaxta. Forseti ASÍ er þungt hugsi. Vísir/vilhelm

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands fordæmir þá ákvörðun Íslandsbanka að hækka vexti á verðtryggðum lánum á sama tíma og verðbólga gangi niður og vonir vakni um að hagur almennings taki að batna. Þórhallur Gunnarsson fjölmiðlamaður er meðal þeirra sem eru hugsi yfir vaxtahækkunum bankanna og lífeyrissjóðanna.

„Þessi viðbrögð við löngu tímabærri lækkun stýrivaxta Seðlabankans jafngilda því að stjórnendur Íslandsbanka hafi kastað blautri og illa þefjandi tusku sinni beint í andlit landsmanna,“ segir í tilkynningu frá ASÍ.

Íslandsbanki tilkynnti um yfirvofandi 0,30 prósentastiga hækkun á breytilegum verðtryggðum vöxtum í sömu andrá og peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði stýrivexti um 0,50 prósentustig. Arion banki hefur sömuleiðis hækkað breytilega vexti og sumir lífeyrissjóðirnir.

„Miðstjórn telur óboðlegt með öllu að stjórnendur Íslandsbanka skuli nánast á sömu mínútu og tilkynnt var um 0,50 prósentustiga lækkun stýrivaxta Seðlabankans greina frá því að breytilegir verðtryggðir vextir hækki um 0,30 prósentustig. Þessi gjörningur er enn ein sönnun þess hvernig fjármálavaldið ætlar ekki að missa mínútu úr við að mergsjúga fólkið í landinu,“ segir í tilkynningunni.

Vakin er athygli á að með hækkuninni á miðvikudag hafi Íslandsbanki hækkað breytilega verðtryggða vexti um 0,80 prósentustig á síðustu 60 dögum. 

„Mjög margir lántakendur sem trúðu gaspri stjórnmálamanna um efnahagslegan stöðugleika hafa staðið og standa nú frammi fyrir því að fastir vextir eru að losna. Flestir neyðast til að endurfjármagna lánin með verðtryggðum lánum. Þannig hefur íslenskum lántakendum skipulega verið „smalað“ yfir í hið verðtryggða lánaform til að gefa bönkum færi á frekari vaxtahækkunum. Á sama tíma fækkar þeim sem greiða af óverðtryggðum lánum sínum. Þá vexti lækkar því Íslandsbanki.“

Miðstjórn ASÍ telur með öllu óásættanlegt að nú þegar launafólk hafi sýnt ábyrgð við gerð kjarasamninga og árangur sé tekinn að sjást að fjármálastofnanir nýti tækifærið og hækki verðtryggða vexti með það að markmiði að viðhalda óeðlilegri arðsemi á fákeppnismarkaði. 

„Nú þegar hefur almenningur þurft að horfa upp á bankana stinga lækkun bankaskatts í vasa eigenda frekar en að skila ábatanum til neytenda. Ósvífnin er fullkomnuð þegar bönkum er falið að innheimta ábata kjarasamninga í krafti einokunar.“

Miðstjórn Alþýðusambandsins telur að launafólk fái ekki þolað lengur það siðleysi sem fær þrifist óáreitt innan íslenska bankakerfisins. Á þessum „markaði“ ríki gjörspillt fákeppni sem einkennist af ógegnsæi og græðgi.

Þórhallur sendi bréf

Fjölmargir neytendur hafa velt fyrir sér hækkun bankanna á vöxtum á verðtryggðum lánum. Þeirra á meðal er fjölmiðlamaðurinn Þórhallur Gunnarsson sem sendi Íslandsbanka fyrirspurn vegna þessa og leyfði vinum sínum á Facebook, mörgum mjög áhugasömum um vaxtahækkunina, að fylgjast með.

„Sæl öll, Ég hef verið í viðskiptum við Íslandsbanka frá stofnun hans. Það sem laðaði mig að bankanum á sínum tíma og lét mig ílengjast var einstakt viðmót þjónustufulltrúa sem leiðbeindu mér í gegnum þennan frumskóg ólíkra þjónustuleiða. Í mínum huga hafði Íslandsbanki alltaf ímynd “góða bankans”… en sú mynd hefur aðeins fölnað. Ég varð svolítið hissa þegar ég sá að þið hafið hækkað verðtryggða húsnæðivexti í kjölfar þess að stýrivextir lækkuðu. Þetta hljómar mjög mótsagnakennt og ég skil ekki þessa ákvörðun enda gerðu flestir sér vonir að lækkun stýrivaxta hefðu jákvæð áhrif, ekki síst þau sem eru með verðtryggð lán. Þegar virðist birta til, svona rétt fyrir jólin, verðbólga fer lækkandi, verbólguvæntingar lækka, stýrivextir lækka og nánast enginn hagvöxtur þá bregðist þið við með því að herða tökin á fólki og hækka vexti á verðtryggðum lánum. Getið þið útskýrt fyrir mér sanngirnina í þessu og gert það á einfaldan og heiðarlegan hátt?“ sagði í bréfinu sem Þórhallur sendi í gær.

Svar barst í dag. Þar segist bankinn þurfa að fjármagna verðtryggð lán sín með dýrari hætti því verðbólga hafi lækkað hraðar en stýrivextir. Neikvæður vaxtamunur verði af lánum hjá bankanum næstu mánuði miðað við spár um verðbólgu þrátt fyrir hækkun á lánunum.


Takk fyrir póstinn. Í kjölfarið á vaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands hækkuðu verðtryggðir vextir Íslandsbanka, það er skiljanlegt að spyrja af hverju þeir vextir séu að hækka þegar aðrir lækka.

Sú ákvörðun bankans að hækka verðtryggðu húsnæðislánavextina er samspil margra þátta, en til einföldunar má segja að fjármögnun á verðtryggðum lánum hefur hækkað þar sem verðbólga hefur lækkað hraðar en stýrivextir og við þannig aðstæður hækka raunvextir.

Bankinn fjármagnar því verðtryggð lán sín með dýrari hætti.

Stýrivextir eru nú 8,5% og spár gera ráð fyrir 2-3% árlegri verðbólgu næstu mánuði.

Með því að draga vænta verðbólgu frá stýrivöxtum fæst að raunstýrivextir eru 5,5-6,5%.

Það þýðir í raun það að bankinn er að fjármagna sig á 5,5-6,5% vöxtum til næstu mánaða, en hækkaði húsnæðislánavexti í 5,0%.

Þrátt fyrir hækkunina í gær verður því neikvæður 0,5-1,5% vaxtamunur af þessum lánum næstu mánuði miðað við spár um verðbólgu.

Það er von okkar að þetta útskýri þá vaxtabreytingu sem um ræðir.

Kveðja

Íslandsbanki






Fleiri fréttir

Sjá meira


×