Hann bauð þjóðinni til veislu í tilefni útgáfu bókarinnar Stella segir bless en það er síðasta bókin í bókaflokknum um Stellu.
Fyrsta bókin var Mamma klikk en hún kom út fyrir næstum 10 árum. Flestir krakkar á Íslandi þekkja nú til Stellu og skrautlegu fjölskyldunnar hennar: Mömmu klikk, pabba prófessors, ammanna, systkinanna fimm og nojaða nágrannans.
Dagskráin hófst með skemmtiatriðum frá Gunna og Felix, Tónafljóðum og Skólakór Kársnesskóla. Þar var á meðal annars frumflutt glænýtt jólalag þar sem Gunni og Felix fengu Tónafljóð til liðs við sig. Fjöldi fólks lagði leið sína í Smáralind til að horfa á þau syngja og sprella, ásamt því að taka á móti glaðningum frá Forlaginu og fá áritun frá metsöluhöfundinum sjálfum.
Óhætt er að segja að gleðin hafi verið við völd eins og sést á meðfylgjandi myndum. Gunnar var alsæll með móttökurnar og mjög þakklátur öllum þeim sem mættu í Smáralindina og fögnuðu með honum útgáfu nýju bókarinnar. „Þetta var ótrúlega skemmtilegt og ég vona að allir hafi skemmt sér jafn vel og við gerðum,“ sagði Gunnar.