Erlent

Leita móður ungabarns sem fannst látið á víða­vangi

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnisvarði um „Barn A“ í Salford í Englandi.
Minnisvarði um „Barn A“ í Salford í Englandi. Lögreglan í Salford

Lögreglan á Manchestersvæðinu svokallaða í Englandi hefur beðið móður barns sem fannst látið í almenningsgarði í Salford á miðvikudaginn um að stíga fram. Kona sem var á göngu með hund sinn fann lík barnsins, sem hafði verið vafið inn í einhverskonar dúk.

Enginn veit hver móðir þess er og hefur barnið verið kallað „Barn A“.

Á blaðamannafundi sem haldinn var í dag sagði Charlotte Whalley, yfirmaður hjá lögreglunni, að mikið kapp væri lagt á að finna svör og tryggja að móðir barnsins væri örugg.

„Við vitum að móðir barnsins er einhversstaðar og mögulega að horfa á þetta,“ hefur Sky News eftir Whalley. Hún bað alla sem teldu sig geta veitt lögreglunni einhverjar upplýsingar um málið um að hafa samband og hjálpa lögreglunni að finna konuna.

Þá sagði Whalley að verið væri að fylgja eftir nokkrum vísbendingum en ekki væri búið að bera kennsl á barnið. Til stæði að framkvæma krufningu á barninu snemma í næstu viku.

Samkvæmt Sky liggur ekki heldur fyrir hvers kyns barnið var né af hvaða uppruna það var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×