Körfubolti

Fer á mjög dimman stað þegar lið hans tapar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Redick kann ekki vel við það að tapa leikjum.
Redick kann ekki vel við það að tapa leikjum. Sean Gardner/Getty Images

JJ Redick, þjálfari Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta, fer á dimman stað þegar lið hans tapar leikjum. Nánar tiltekið niður í kjallarann heima hjá sér að horfa á leikinn á nýjan leik.

Hinn fertugi Redick tók við þjálfun Lakers í sumar en um er að ræða hans fyrsta þjálfunarstarf í NBA-deildinni. Eftir súran endi á síðustu leiktíð hefur Lakers hins vegar byrjað nokkuð vel á yfirstandandi leiktíð og á Redick sinn þátt í því.

Þjálfarinn var hins vegar allt annað en sáttur eftir eins stigs tap Lakers gegn Orlando Magic á heimavelli í nótt. Anthony Davis gat komið heimaliðinu fjórum stigum yfir af vítalínunni en brenndi af báðum vítaskotum sínum.

Lakers var því tveimur stigum yfir þegar Magic fóru í síðustu sókn leiksins. Endaði hún með því að Franz Wagner – sem var sjóðandi heitur í leiknum – setti niður þriggja stiga körfu og tryggði gestunum frækinn sigur.

Eftir leik ræddi Redick við fjölmiðla. Þar sagðist hann fara á mjög dimman stað eftir tapleiki. Áður en orð hans voru mistúlkuð sagði hann að um kjallarann heima hjá sér væri að ræða. Þar sæti hann í myrkrinu og horfði á klippur úr leiknum sem lið hans var nýbúið að tapa.

Að loknum 15 leikjum situr Lakers í 4. sæti Vesturdeildar með 10 sigra og 5 töp. Lærisveinar Redick eiga erfiða leiki framundan en liðið mætir Denver Nuggets á aðfaranótt mánudags og Phoenix Suns á aðfaranótt miðvikudags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×