Innlent

Braut rúðu í lög­reglu­bíl

Samúel Karl Ólason skrifar
Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum og þrír voru án réttinda
Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum og þrír voru án réttinda Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar höfðu í nógu að snúast í nótt var mikið af útköllum í miðbænum vegna ölvunar og óláta. Þá barst einnig tilkynning um hópslagsmál þar og að minnsta kosti eina líkamsárás.

Í einu tilfelli á höfuðborgarsvæðinu í nótt var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi í umferðinni. Sá streittist mikið á móti þegar afskipti voru hafin af honum og braut hann rúðu í lögreglubíl. Við það var hann „tekinn í tök“, eins og það er orðað í dagbók lögreglunnar og fluttur á lögreglustöð.

Þá var einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þegar lögregluþjónn nálgaðist bílinn voru ökumaður hans og farþegi að reyna að skipta um sæti en tókst það ekki. Báðir voru handteknir og einnig fundust fíkniefni í bílnum.

Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum og þrír voru án réttinda. Einnig kom í ljós eftir umferðarslys, þar sem enginn slasaðist, að annar bíllinn var óskráður.

Að endingu var lögreglan kölluð til vegna unglingateitis sem fór úr böndunum og var það leyst upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×