Fótbolti

Albert kemur til greina sem sá besti á Ítalíu

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson er núna leikmaður Fiorentina en er tilnefndur vegna afreka sinna með Genoa á síðustu leiktíð.
Albert Guðmundsson er núna leikmaður Fiorentina en er tilnefndur vegna afreka sinna með Genoa á síðustu leiktíð. Getty/Giuseppe Maffia

Hvað eiga Cristiano Ronaldo, Andrea Pirlo, Zlatan Ibrahimovic og Albert Guðmundsson sameiginlegt? Að minnsta kosti það að hafa allir verið tilnefndir sem leikmaður ársins í ítölsku A-deildinni í fótbolta.

Hinir þrír hafa reyndar allir hlotið verðlaunin, sem veitt eru af Samtökum fótboltamanna á Ítalíu, en Albert er nú tilnefndur fyrstur Íslendinga. Hann er í hópi 23 leikmanna sem tilnefndir eru að þessu sinni.

Verðlaunin verða veitt á galahátíð mánudagskvöldið 2. desember, í beinni útsendingu á Sky á Ítalíu.

Um er að ræða verðlaun vegna frammistöðu á tímabilinu 2023-24. Albert, sem nú er leikmaður Fiorentina, átti þá stórkostlegt tímabil með þáverandi nýliðum Genoa. Hann endaði á að skora fjórtán mörk og varð í 5. sæti yfir markahæstu leikmenn A-deildarinnar.

Albert hefur svo fylgt þessu eftir með því að skora þrjú mörk í fjórum leikjum fyrir Fiorentina, en misst af stærstum hluta tímabilsins til þessa vegna meiðsla.

Eins og fyrr segir er Albert einn af 23 leikmönnum sem koma til greina sem leikmaður ársins. Úr þessum hópi verður valið 11 manna úrvalslið og svo sá besti. Albert er þannig einn af sex sóknarmönnum sem eru tilnefndir.

Í fyrra var Nígeríumaðurinn Victor Osimhen valinn bestur, vegna leiktíðarinnar 2022-23.

Tilnefningarnar í ár:

Markmenn: Di Gregorio, Maignan, Sommer.

Varnarmenn: Bastoni, Bellanova, Bremer, Buongiorno, Calafiori, Dimarco, Dumfries, Theo Hernández.

Miðjumenn: Barella, Çalhanoğlu, Dybala, Koopmeiners, Mkhitaryan, Rabiot.

Sóknarmenn: Albert Guðmundsson, Lautaro Martínez, Leão, Lookman, Thuram, Zirkzee.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×